Ingólfstorg er sennilega ljótasta torg í Reykjavík – jæja, Hlemmtorg er ekki fallegt heldur en Lækjartorg hefur skánað nokkuð.
Sjálft torgið er eins og fjandsamleg steinsteypumartröð – þar halda aðallega til rónar, brettastrákar og mótorhljólafólk – en húsin í kring eru einkennilega sundurlaus. Mér finnst alltaf eins og dragi fyrir sólu og kólni nokkrar gráður þegar ég nálgast torgið.
Mörg hús þarna urðu eldi eða jarðýtum að bráð – Fjalakötturinn var rifinn, á unglingsárum horfði ég á tvo bruna þarna – í staðinn reis einkennilega ljótt hús Tryggingamiðstöðvarinnar og hótel sem kallast Plaza. Það er stórt orð Hákot…
Svonefndur Miðbæjarmarkaður var reistur þarna á grunni timburhúss sem var rifið – á milli Ingólfstorgs (sem þá var reyndar almennt kallað Hallærisplanið) og Fógetagarðsins. Svo þótti mönnum ekki nóg að gert heldur stækkuðu húsið þannig að það varð margra hæða ferlíki.
Allt ber að sama brunni, heildarmynd torgsins er óvenju tætingsleg og óaðlaðandi, þótt þarna sé einstaka gamalt og fallegt hús, Fálkahúsið, Hótel Vik og gamla Ísafoldarhúsið sem var flutt úr Austurstræti til að rýma fyrir nýrri skrifstofubyggingu.
Þess vegna er ég ekki alveg viss um að ég eigi að vera á móti samkeppni um hótelbyggingu við suðurhlið torgsins. Í tilefni af því hefur verið rætt um að flytja tvö timburhús sem standa þar framar á torgið – hljómleikasalinn á veitingastaðnum sem kallast NASA átti svo að grafa ofan í jörð. Þannig voru plönin altént þegar deilt var um málið fyrir nokkrum misserum.
En það mætti auðvitað hugsa sér að menn yrðu aðeins stórtækari, þá mætti jafnvel rífa Moggahöllina, Miðbæjarmarkaðinn og nokkur fleiri af nýlegri húsum við Ingólfstorg. Svo væri ráð að taka aðeins af grárri steinsteypunni í torginu sjálfu – og hanna aðeins hlýlegra umhverfi.