Ég er að lesa nýju bókina hans Arnalds sem nefnist Einvígið. Við tölum um hana í næstu Kilju.
Við Arnaldur erum á líku reki, bókin á að gerast 1972, ég kannast afskaplega vel við mig í tímanum sem hann lýsir.
Hann segir frá bíóferðum þessa tíma, fimmsýningunum, ég var einmitt drengur sem fannst gaman að fara einn í bíó klukkan fimm.
Baksvið sögunnar er heimsmeistaraeinvígið í skák milli Fischers og Spasskýs. Arnaldur lýsir því hvílíkur stóratburður þetta var og nær að skila andrúmsloftinu býsna vel.
Sjálfur var ég tólf ára og fór nokkrum sinnum í Laugardalshöllina til að fylgjast með. Þetta var mikill karlaheimur, maður sá allt frá leigubílsstjórum til ráðherra leggja kollhúfur yfir skákunum.
Þetta er svolítið annað Ísland en það sem við þekkjum nú, afskekktari staður, sveitalegri liggur manni við að segja. Hann kemur víst aldrei aftur tíminn þegar allt var undirlagt af skák.
Aftar í bókinni er svo enn eldri tími, tíminn þegar berklaveiki var landlæg og lagðist ekki síst á ungt fólk. Lýsingar Arnaldar á börnum sem stríða við berkla eru sorglegar, en líka sérlega fallegar.