Í myndatexta á Vísi segir að ekki sé létt yfir Silvio Berlusconi þessa dagana.
En þetta er ekki rétt – Berlusconi hefur sjaldan verið kátari.
Á leiðtogafundum má greina að kreppuástandið er farið að taka sinn toll af Angelu Merkel og Nicolas Sarkozy.
Berlusconi hefur hins vegar sjaldan litið eins vel út – hann er búinn að fara í hárígræðslu, brosir og gerir að gamni sínu, mænir á bakhlutann á Helle Thorning-Schmidt.
Hann er að gefa út plötu með ástarlögum – lætur ekki að sér hæða þótt fjórar málsóknir séu gegn honum fyrir ítölskum dómstólum og ekki heldur þótt Ítalía sé gjörsamlega á hausnum og gæti verið næst til að sökkva eins og Grikkland.
Martina Hyde skrifar í Guardian og vill meina að brosið á Berlusconi sé eins konar öfugsnúið tákn fyrir tímana sem við erum að lifa.