Ólafur Arnarson skrifar að Hanna Birna Kristjánsdóttir sé enginn Davíð Oddsson.
Líklega má þakka fyrir það – og jafnvel telja það meðmæli.
Davíð var afar breyskur stjórnmálamaður, sem stjórnaði landinu að miklu leyti í gegnum gamla skólaklíku – nú stundar hann mjög beiskjublandin stjórnmálaskrif á Morgunblaðinu. Í dag birtist til dæmis eftir hann grein um Grikkland sem má einna helst segja að einkennist af freyðandi vanþekkingu.
Að því leyti minnir hann ansi mikið á Jónas frá Hriflu – mjög brogaðan stjórnmálamann, sérlega einráðan, sem endaði feril sinn í beiskju og sárindum. Greinaskrif Jónasar einkenndust af flestu öðru en stillingu.
En reyndar má segja að Davíð sé slegið út á leiðarasíðunni – af sjálfum Guðna Ágústssyni.
Guðni skrifar grein um landakaup Huangs Nobu á Fjöllum.
Eitt af því sem Guðni varar við í greininni er að fjöldi Kínverja muni setjast að norðanlands – jafnvel í Eyjafirði – og hefja þar hrísgrjónarækt.