Maður hlýtur að fagna samkeppni í flugi. Flugfargjöld til og frá landinu eru óskaplega há – samkeppnin milli Icelandair og Iceland Express er ekki sérlega virk.
Reyndar hefur maður helst óttast að Iceland Express væri að leggja upp laupana. Í gær birtust fréttir um að Pálmi Haraldsson hefði boðið flugfélagið til kaups, en í dag stendur í Fréttablaðinu að félagið ætli loks að koma sér upp flugvélaflota. Hins vegar stendur til að fækka áfangastöðum.
Maður tekur þó fréttum úr þessari átt með miklum fyrirvara. Það verður líka að segjast eins og er að maður hefur verið hikandi að fljúga með Iceland Express, bæði vegna tíðra seinkana og eignarhaldsins.
Nýtt flugfélag sem Skúli Mogensen og fleiri eru að stofna er sagt eiga að heita „Wow“.
Fínt að fá nýtt flugfélag, en nafnið er ekki gott. Íslendingar eiga ekki gott með að segja „wow“ – þegar við tölum ensku er erfitt fyrir okkur að gera greinarmun á v og w.
Gott væri ef nýtt flugfélag byði upp á lág fargjöld til annarra staða en Lundúna og Kaupmannahafnar – Icelandair og Iceland Express hafa einblínt á þessa staði.
Það mætti til dæmis benda á Osló eða Berlín – síðarnefnda borgin er ein sú skemmtilegasta í Evrópu, hún er ekki sérlega dýr, og þaðan er auðvelt að fara í tengiflug víða um lönd.