Ég er að lesa mikla ævisögu Gunnars Gunnarssonar rithöfundar sem Jón Yngvi Jóhannsson hefur skráð.
Maður verður vísari um ýmislegt við lesturinn.
Gunnar bjó við kröpp kjör fyrstu árin eftir hann flutti til Danmerkur. Hann fór þangað til að nema í lýðháskólanum í Askov – en líkaði ekki sérlega vel, skólinn var of guðrækilegur fyrir hann.
Gunnar virðist hafa þráð borgaralegt öryggi, því undireins og hann hefur efni á stofnar hann háborgaralegt heimili. Honum er heldur í nöp við bóhemalíf, verður eiginlega skelfingu lostinn yfir uppátækjunum í Hermanni Bang – sem var sérstakur ógnarbíldur góðborgara í Danmörku – og honum mislíkar mjög við Jónas Guðlaugsson skáld sem var óreglusamur og óskilvís.
Jón Yngvi segir að lykillinn að skáldskap Gunnars á fyrstu árunum í Danmörku – hann skrifaði á dönsku og tókst að verða einn fyrsti íslenski atvinnurithöfundurinn – sé í raun ekki að finna á Íslandi. Söguefnin séu kannski íslensk að einhverju leyti, en Gunnar skrifi mjög í anda átthagabókmennta sem voru vinsælar í Danmörku og víðar fyrst á tuttugustu öldinni.
Höfundar þeirra höfðu gjarnan svipaðan uppruna og Gunnar, komu úr sveit og lýstu lífinu þar á dramatískan hátt og náðu að setjast á skáldabekk þar sem áður höfðu fyrst og fremst setið laukar borgarastéttarinnar.
Þetta er áhugaverð bók – og nú held ég áfram að lesa.
Gunnari Gunnarssyni leist ekki á danska hommann og bóheminn Herman Bang. Gunnar vildi röð og reglu, en Bang var maður óreiðunnar.