Stjórnmálafræðingurinn Nikos Dimitriou skrifar í Guardian um hina miklu spillingu sem er landlæg í grískum stjórnmálum þar sem ættir og klíkur líta á ríkið sem einhvers konar lén sem þeim er heimilt að mjólka að vild.
Traustið á stjórnmálum er heldur sama og ekkert í Grikklandi – 90 prósent vantreysta stjórnmálamönnum. Samt eru sömu flokkarnir kosnir aftur og aftur – sama fólkið og sömu fjölskyldurnar.
Dimitriou er mjög efins um að það sé heppilegt fyrir Grikkland að hætta að greiða skuldir sínar, yfirgefa evruna og taka upp drökmu að nýju. Vinsæl kenning er sú að þannig muni Grikkland geta byrjað upp á nýtt, eflt útflutningsgreinar og komist út úr kreppunni.
En það eru ýmsir gallar á þessu. Ríkir Grikkir hafa flutt mikið fjármagn úr landi og halda því áfram. Reyndar er ekki ólíklegt að það verði einmitt þessi yfirstétt sem muni kaupa grískar eignir á brunaútsölu ef til þess kemur.
Grikkir eru mjög háðir innflutningi á ýmsum vörum, ekki síst eldsneyti og matvælum, sem þeir myndu þurfa að kaupa miklu dýrara verði með endurvakinni drökmu.
Grikkir hafa ekki mikið til að flytja út, þeir eru háðir ferðamennsku, en ferðamenn hika við að fara til landa þar sem er pólitísk upplausn. Það verður líka skortur á fé til að halda uppi innviðunum í ferðamennskunni – það er frægt að í fáum Evrópulöndum er erfiðara að fjárfesta en einmitt í Grikklandi.
Bankar myndu hrynja, fólk tapa sparnaði sínum, líklega yrðu stjórnvöld að lýsa yfir neyðarástandi. Í þetta sinn yrðu ekki bara hinar kunnuglegu óeirðir í Aþenu, heldur myndu þær brjótast út um allt land. Það er spurning hvernig herinn og lögreglan myndu bregðast við þessu.
Gríska stjórnin – sem er þekkt fyrir annað en gott skipulag – myndi þurfa að beita mikilli stjórnvisku í slíku ástandi, það þyrfti að setja á alls konar höft, óvíst er hvort hægt yrði að greiða laun í landinu – og þá er einnig spurning um bótaþega – og það þyrfti að tryggja framboð á mat, eldsneyti og lyfjum. Stjórnin sem mun þurfa að standa í slíkum stórræðum hefur reynst ófær um að standa við þriggja ára plan um að ná 10 prósenta sparnaði í ríkisrekstri og að innheimta 1,2 milljarða evra af ógreiddum sköttum.
Eins og kemur fram í einni athugasemdinni við grein Dimitrous eru horfur á að þjóðarframleiðsla Grikklands falli um 15 prósent vegna kreppunnar sem nú stendur yfir – ef verður greiðslufall og Grikkland tekur aftur upp drökmu segir að þjóðarframleiðslan hrynji um 50 prósent.
Menn velta því fyrir sér hvað vakir fyrir Papandreou. Ein kenningin er reyndar sú að þetta sé örvæntingarfullt útspil trausti rúins stjórnmálamanns og stéttarbræðra hans – með þessu nái hann ef til vill að hanga á völdum sem hann hefði misst ella og beina reiði fólksins út á við, til útlanda. En þá er þess að gæta að það er síður en svo einsýnt hvernig þjóðaratkvæðagreiðslan fer – þótt skuldabyrði Grikkja sé þung er gert ráð fyrir að talsvert af henni verði fellt niður og eins sýna skoðanakannanir að mikill meirihluti þjóðarinnar telur óráðlegt að hverfa frá evrunni.