Tveir (fyrrum) ungir sjálfstæðismenn eru komnir í hörku herferð gegn íslensku krónunni.
Þórlindur Kjartansson, fyrrverandi formaður SUS, skrifar á vef Deiglunnar og segir að krónan sé dýr fimmaurabrandari sem útheimti girðingar kringum íslenskt viðskiptalíf.
Pawel Bartozsek setur færslu inn á vefin PaBaMap.com þar sem má sjá skrautlegt línurit sem sýnir hvernig krónan hefur fallið gagnvart dönsku krónunni.
Pawel komst reyndar býsna nálægt því að kveðja Sjálfstæðisflokkinn í pistli í Fréttablaðinu í síðustu viku þegar hann skrifaði:
„Það er vel hægt að hugsa sér fleiri hugmyndafræðilega samstæða flokka inni á íslenska stjórnmálasviðinu. Kannski vantar umhverfisverndarflokk sem er meira grænn en rauður? Kannski ættu frjálshyggjumenn að bjóða fram? Eða hópar tengdir mótmælendum? Ég hefði síðan ekkert á móti Evrópusinnuðum hægriflokki. Sjálfstæðisflokkurinn er vitanlega ekki Evrópusinnaður, hann er líklegast ESB-skeptískari en oft áður. Það er þannig séð ekki útilokað að deila flokki með fólki sem er ósammála manni um ESB. En það þarf tvo til. Sé yfirgnæfandi meirihluti fólks í einhverjum samtökum á því að maður eigi ekki samleið með því, þá á maður líklegast ekki samleið með því.“
Pawel Bartozsek birtir þetta línurit sem sýnir þróun íslensku krónunnar gagnvart þeirri dönsku. Á öðru grafi lætur Pawel línurnar hreyfast þannig að þetta verður ennþá myndrænna.