Enn er rætt um Ísland og Kanadadollar.
Nokkrir hlutir eru býsna óljósir í þessu.
Það hefur aldrei komið fram að stjórnin í Ottawa eða kanadíski seðlabankinn vilji leyfa Íslendingum að taka upp gjaldmiðil sinn (önnur leið væri auðvitað að Kanadamenn tækju upp íslensku krónuna).
Eða er þetta leyfi ekki nauðsynlegt – gætu Íslendingar lýst því yfir að nú væri krónan tengd við gengi Kanadadollars?
Þá þyrftum við ekki að skipta krónunum okkar yfir í kanadíska dollara – annars er hætt við að við þyrftum að kaupa gjaldmiðilinn þeirra dýru verði og þá yrði gengið mjög hátt fyrir íslenska notendur hans.
Annað í þessu er tal um Kanada, Ísland og heimskautið. Um það hefur oft verið rætt á þessari síðu.
Bæði löndin liggja nálægt Norðurheimskautinu, rétt er það. En þau eru hins vegar á ólíkum hafsvæðum. Fyrir norðan Kanada er hin svokallaða norðvesturleið. Hún er mjög illa fær og rætist spár um hnattræna hlýnun opnast hún mun seinna en leiðin norður fyrir Rússland. Norðvesturleiðin liggur norður fyrir Kanada og suður milli Kanada og Grænlands.
Það þarf ekki annað en að líta á kort til að sjá hvernig þetta er – hafi Ísland eitthvert tilkall norður í höfum er það á hafsvæðinu milli Grænlands annars vegar og Noregs og Rússlands hins vegar. Skip sem færu hér um eftir að hafa siglt um heimskautið væru að koma norðausturleiðina – þau hefðu hvergi komið nálægt Kanada.
Leiðir Íslands og Kanada liggja semsagt ekki sérlega mikið saman þarna norðurfrá – eins og sjá má þegar kortið hér að neðan er skoðað. Við gætum sjálfsagt spjallað við Kanadamenn um hvernig það sé að búa á norðurslóðum, en við búum á öðrum stað á hnettinum. Kanadísk skip munu varla fara að sjá um gæslu á hafsvæðinu fyrir norðan okkur, það er líklegra að þau verði rússnesk, norsk eða jafnvel dönsk – vegna Grænlands.
Kanada er hins vegar land með bjarta framtíð, að því er virðist. Vel menntað fólk, gott velferðarkerfi, miklar auðlindir, fer vel út úr kreppunni. Það er kannski ekki furða að suma hér á Íslandi láti sig dreyma um að tengjast þessu. Það er að segja ef álitið er nauðsynlegt að koma Íslendingum og íslenska gjaldmiðlinum í skjól stærri þjóðar – í því felst auðvitað afsal á hinu dýrmæta fullveldi.
Samskiptin við Kanada hafa hins vegar verið sáralítil. Það er bent á að við seljum afar lítið af vörum til Kanada og í raun vanhagar Kanadamenn ekki um margt sem við framleiðum – og hermt er að mjög erfitt sé fyrir Íslendinga að setjast að í Kanada þótt þeir vildu. Ástæðan er skrifræði þar í landi og hömlur á innflutningi fólks.