Það eru merkir hlutir uppi í orkumálunum.
Forstjóri Landsvirkjunar fullyrðir að arðsemiskrafa Landsvirkjunar hafi verið alltof lág. Þarna er náttúrlega verið að tala um raforkuverð til stjóriðju – hún gleypir megnið af framleiðslu Landsvirkjunar.
Raforkuverðið þarf að hækka, segir Hörður Arnarson, og bætir við að þessi auðlind beri ekki nafn með rentu.
Á sama tíma birtir Kastljós upplýsingar á skýrslu sem hefur verið unnin á vegum Reykjavíkurborgar og lýsir slæmum rekstri Orkuveitu Reykjavíkur í aðraganda hrunsins. Meðal þess sem er tekið fyrir eru orkusölusamningar vegna Hellisheiðarvirkjunar og Hverahlíðavirkjunar sem eru sagðir bera vott um áhættusækni og fyrirhyggjuleysi.
Í báðum tilvikum er verið að fara yfir vinnubrögð sem þóttu nánast sjálfsögð til skamms tíma – að það væri ekkert mál að færa stóriðjufyrirtækjum orkuauðlindir nánast á silfurfati. Þetta eru ákveðin tímamót.
Þeir voru reyndar til á sínum tíma sem bentu á að arðsemin af Kárahnjúkavirkjun væri alltof lítil eins og Landsvirkun hefur nú staðfest, en þeir voru fáir og strjálir og margir sem þóttust vita þetta voru hræddir við að tjá sig í því andrúmslofti sem þá ríkti í samfélaginu.