Við fjölluðum um byggingu nýs risaspítala í Silfrinu í gær.
Það eru í raun mjög margar spurningar sem er ósvarað – eða lítt svarað – varðandi þessa framkvæmd.
Nú er í gangi einhvers konar samráðs- og umsagnarferli varðandi spítalann og um að gera að nota það vel. Það væri sjálfsagt eðlilegt ef málið kæmi líka til kasta Alþingis – þetta er risastór ákvörðun sem varla er gott að sé tekin einungis innan veggja framkvæmdavaldsins. Málið varðar í raun alla skattgreiðendur – alla borgara þessa lands.
Engum dylst þó að húsnæði Landspítalans er fjarri því að vera nógu gott – það þarf að gera bragarbót þar á.
Eins og segir eru álitamálin mörg:
Umferðarmálin – umferðin í átt að spítalanum mun aukast mjög. Það er gert ráð fyrir því að starfsmenn fari að hjóla í auknum mæli, en það er eins og hverjir aðrir hugarórar.
Byggingamagn – þarna eru settar miklar og stórar byggingar niður í gömlu og grónu hverfi neðst í Skólavörðuholtinu. Því fylgir óhjákvæmilega mikið rask. Það er þröngt um spítalann þarna. Nú þegar er Vatnsmýrin sundurskorin af akbrautum sem hafa verið réttlættar með spítalanum – var það ætlunin að þetta svæði þróaðist svona?
Fjármögnunin – hvernig stendur ríkið að henni meðan mjög er þrengt að heilbrigðisþjónustu í landinu og læknar og hjúkrunarfólk flýja land.
Miðstýringin – stefnan í heilbrigðismálum virðist vera sú að byggja einn risastóran spítala meðan aðrar sjúkrastofnanir – og ekki síst úti á landi – eru lagðar niður eða látnar gjalda fyrir þessa stefnu.
Kostnaðurinn – hann er mjög mikill. Við vitum líka að á Íslandi fer kostnaður við framkvæmdir af þessu tagi yfirleitt langt fram úr áætlun. Hver verður kostnaðurinn þegar upp er staðið?
Ákvörðunarferlið – það hefur verið sagt að ákvörðunin um að byggja spítalann þarna hafi tekið sig sjálfa. Ferlið hefur allt verið mjög ógegnsætt, og í raun er það fyrst núna að einhver almennileg umræða er að komast í gang.
Hæð bygginganna – þetta er álitamál. Þær eru býsna háar nú þegar og það verður talsvert skuggavarp, en sumir telja að væri hagkvæmara að byggja enn hærra upp í loftið. Það er ekki hægt vegna nálægðarinnar við flugvöllinn.
Á móti hefur verið bent á að rekstur spítalans verði hagkvæmari með þessu móti. Það má vera. Hann mun dreifast yfir stórt svæði og því fylgir ákveðinn kostnaður – og svo á eftir að koma í ljós hvernig kostnaðaráætlanir varðandi bygginguna standast.
Spítalinn væri þó líklega ekkert óhagkvæmari ef hann væri reistur annars staðar – í Fossvogi, við Vífilstaði eða við Ártúnshöfða eins og líka hefur verið lagt til.
Önnur rök eru nánd við háskólasamfélagið. Þau vega varla mjög þungt – í bílasamfélaginu á Íslandi er maður ekkert sérstaklega að sjá fyrir sér læknaprófessora gangandi úr Skólavörðuholtinum vestur í bæ á fund kollega sinna. Er ekki líklegra að þeir setjist bara upp í jeppana sína?