fbpx
Þriðjudagur 16.september 2025
Eyjan

Norðurlöndin og pólitískar öfgar

Egill Helgason
Fimmtudaginn 10. nóvember 2011 14:41

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég skrifa annað slagið greinar í norrænt tímarit sem nefnist Analys Norden. Þemað í síðasta hefti voru pólitískar öfgar á Norðurlöndunum. Sitt sýnist hverjum um hvað séu pólitískar öfgar – sumir telja frjálshyggju vera öfgastefnu, aðrir telja það öfga að aðhyllast strangar kröfur um náttúruvernd – en í þessu hefti var sjónum fremur beint að öfgahópum sem vilja bylta sjálfu þjóðskipulaginu og skirrast jafnvel ekki við að beita vopnum. Tilefnið var eðililega hin hræðilega hryðjuverkaárás í Útey í Noregi í júlí.

Hér á eftir fer grein mín. Framsóknarmenn deila mjög hart á Eirík Bergmann Einarsson fyrir hvernig hann fjallaði um birtingarmyndir þjóðernisstefnu innan flokksins – eins og sjá má er túlkun mín nokkuð önnur. Ég fæ ekki séð að þau þjóðernisviðhorf sem nú eru uppi í íslenskum stjórnmálum séu öfgastefna – hvað sem síðar kann að verða.

— — —

TÍMI PÓLITÍSKRAR UPPLAUSNAR

Mikill pólitískur órói hefur verið á Íslandi síðan í hruninu í október 2008. Eftir að bankarnir féllu voru fjöldamótmæli í Reykjavík dag eftir dag. Þau náðu hámarki í janúar 2009 í svokallaðri búsáhaldabyltingu þegar kveiktir voru eldar í miðborginni, Alþingishúsið var grýtt og lögregla beitti táragasi á reiðan mannfjöldann. Eftir þessa atburði féll hin breiða samsteypustjórn Sjálfstæðisflokksins, hins stóra hægri flokks, og sósíaldemókrataflokksins Samfylkingarinnar. Mótmælin höfðu þau áhrif að sósíaldemókratarnir sáu sitt ráð óvænna og mynduðu minnihlutastjórn með sósíalistunum úr flokki Vinstri gænna. Vinstri flokkarnir náðu svo meirihluta á Alþingi í kosningum sem voru boðaðar skömmu síðar. Þetta eru sögulegir atburðir – í fyrsta skipti á Íslandi að fjöldamótmæli leiða til stjórnarskipta.

Árásin á Alþingi

Óeirðirnar höfðu ekki mikil eftirmál fyrir þá sem tóku þátt í þeim. Innan um voru vissulega hópar öfgafólks sem vildi helst hleypa öllu í bál og brand. En hvorki lögregla né dómstólar tóku hart á mótmælendunum.  Hópur níu mótmælenda var þó ákærður fyrir „árás“ á Alþingishúsið. Fólkið hafði rutt sér leið inn í húsið og lent í átökum við lögregluog þingverði. Ákæran vakti víða reiði – og varð tilefni til mótmæla – enda liggur mjög ströng refsing við því að gera árás á Alþingi. Málið endaði með því að fimm af níumennngunum voru sýknaðir, einungis fjórir fengu vægar refsingar fyrir óspektir. Þannig má nánast segja að kerfið hafi samþykkt að mótmælin 2008 og 2009 hafi verið réttmæt. Samfélagið var í uppnámi – það var nokkuð almenn tilfinning að stjórnendur landsins hefðu brugðist þjóðinni.

Eftir hrunið voru víða haldnir fjölmennir borgarafundir – ráðherrar og alþingismenn sem voru svo kjarkmiklir að sækja þá voru baulaðir niður. Traustið á stjórnmálamönnum hrundi og það hefur ekki náð sér aftur. Hinir hefðbundnu stjórnmálaflokkar halda þó enn velli á Alþingi og má segja að þar stundi þeir sitt vanabundna karp.

Erfið stjórnmálaumræða

Það er almenn tilfinning í samfélaginu að umræður í þinginu séu á mjög lágu plani miðað við þá vá sem Íslendingar lentu í.  En það er kannski ekki bara stjórnmálamönnunum sem er um að kenna, Íslendingar hafa löngum átt erfitt með að tala um stjórnmál án þess að þeir hverfi lóðbeint ofan í skotgrafir og fari að beita persónulegu skítkasti og orðhengilshætti. Mitt í uppgjörinu og endurreisninni eftir hrunið ætlar ósamlyndi að reynast Íslendingum erfitt.

Þess hefði kannski mátt vænta að hið mikla vantraust á stjórnmálakerfinu leiddi af sér bylgju róttækni og jafnvel öfga. En vanmáttur virðist frekar vera niðurstaðan. Íslenska stjórnmálakerfið er mjög fastmótað, hagsmunaðaðilar hafa mikil ítök, sumt verður ekki skilið nema með því að greina klíkusambönd og hagsmunatengsl. Það sem veldur mestri óánægju er hvernig almenningur situr uppi með skuldafargan eftir hrunið meðan fjármálamennirnir sem steyptu þjóðinni í þessa ógæfu sleppa margir býsna vel og og endurreistir bankarnir eru aftur farnir að skila myljandi hagnaði í bókum sínum. Það er líka útbreidd skoðun að vinstri stjórnin hafi farið út í að endurlífga gamla kerfið í staðinn fyrir að gera breytingar.

Engin hermennskuhefð

Ísland hefur ekki sögu mikilla stjórnmálaöfga. Stéttastjórnmál byrjuðu seint á Íslandi, reyndar urðu kommúnistar þá fljótt sterkir. Ólíkt því sem gerðist í Skandinavíu voru kommúnistar stærri en sósíaldemókratar á Íslandi. Þeir voru hins vegar upp til hópa praktískir menn sem vissu að ekki var von á þjóðfélagsbyltingu, strax 1944 tóku þeir þátt í ríkisstjórn. Hreyfing nasista að þýskri fyrirmynd var til fyrir stríðið – félagsmenn gengu fylktu liði um götur bæjarins í einkennisbúningum – en hún fékk aldrei sérstakan hljómgrunn. Íslendingar hafa aldrei haft her og þeir hafa enga hermennskuhefð – einkennisbúningar þykja frekar afkáralegir og fæstir kunna að ganga í takt. Nasistar hurfu mestanpart þegar Bretar hernámu Ísland 1940 – þess má geta að í stríðinu var Ísland eina landið í Evrópu þar sem lýðræði hélt velli fyrir utan Sviss og Svíþjóð, Bretland og Írland.

Þannig að saga öfgahreyfinga á Íslandi er heldur rýr, þótt auðvitað hafi starfað hér litlir vinstri hópar á árunum í kringum 1970. Flestir þeirra sóttu línuna til svipaðra hópa á Norðurlöndunum. Það segir sitt um samfélagið að einn helsti forsprakkinn í  einum þessara hópa er nú seðlabankastjóri.

Innflytjendamálin varla nefnd

Straumur innflytjenda – sem vissulega er nokkur hvati fyrir hægri öfga – hófst ekki fyrr en mjög seint á Íslandi. Innflytjendum fjölgaði mjög ört í efnahagsbólunni sem hófst um 2000. Flest fólkið kom hingað til að vinna í hinum miklu uppgripum sem þá voru, enda skorti vinnuafl. Íslensk stjórnvöld hafa aftur á móti alltaf verið mjög treg til að taka á móti pólitískum flóttamönnum eða hælisleitendum. Ísland varð fjölþjóðlegt samfélag á skömmum tíma.

Á tímabili varð nokkur umræða um innflytjendastrauminn – að hingað væri að koma stór hópur fólks sem ekki gæti samlagast íslenskri menningu og eyðileggði vinnumarkaðinn fyrir innfæddum. Umræðan var hins vegar ekki nándar nærri jafn spennuþrungin og sums staðar á Norðurlöndunum. Stjórnmálaflokkur sem nefnist Frjálslyndi flokkurinn reyndi að gera sér mat úr innflytjendamálunum í þingkosningunum 2007. Honum tókst frekar illa upp, aðrir flokkar voru ekki tilbúnir að fylgja eftir – og nú hefur flokkurinn nánast þurrkast út. Eftir hrunið hafa innflytjendamál varla verið nefnd – það eru önnur og brýnni vandamál sem steðja að.

Þjóðerniskennd og vantrú á markaðnum

En það er upplausn í stjórnmálunum. Það má segja að stjórnmálin hafi færst í átt til aukinnar þjóðerniskenndar og vantrúar á markaðshagkerfinu. Meira að segja á hægri vængnum hafa menn efasemdir um hinn frjálsa markað sem brást Íslendingum svo illa – einn helsti hugmyndafræðingur hægri manna, Styrmir Gunnarsson, spurði um daginn hvort það væri endilega svo að einkarekstur sé heppilegri en ríkisrekstur. Kreppan, og ekki síst deilurnar um Icesave innlánsreikningana, mögnuðu upp þjóðerniskenndina.

Mörgum Íslendingum fannst þeir beittir ofríki af vinaþjóðum, þar er fremstur í flokki forsetinn Ólafur Ragnar Grímsson sem hefur sakað Norðurlöndin og Evrópuríki um að hafa verið fjandsamleg gagnvart Íslendingum eftir hrunið. Ísland á í aðildarviðræðum við ESB en það er einungis Samfylkingin sem stendur einhuga að baki umsókninni. Aðrir flokkar eru misjafnlega eindregið á móti – og flest bendir til þess að Evrópusambandsaðildin verði ekki að veruleika.

Besti flokkurinn – ekki lengur í gríni

Eins og segir hefur ekki verið mikill jarðvegur fyrir pólitískar öfgar á Íslandi. Það er fremur að hið slítandi þras og þvarg, flokkadrættir og yfirgangur hagsmunaaðila hafi verið dragbítur á samfélagið. Það virðist vera erfitt að fá skynsamlega niðurstöðu í mál, mikið hefur verið rætt um lélega stjórnmálamenningu en hún hefur lítið breyst til batnaðar.

Grínframboðið Besti flokkurinn vann stórsigur í borgarstjórnarkosningum í fyrra og borgarstjórinn Jón Gnarr kemur úr röðum hans. Útlit er fyrir að Besti flokkurin ætli nú að beina spjótum sínum að landsmálunum. Brandarinn er reyndar hættur að vera fyndinn, flokkurinn glímir við niðurskurð og ofurskuldsett borgarfyrirtæki, en það er ekki að ástæðulausu að gömlu flokkarnir óttast um fylgi sitt.

Umburðarlyndi

Trúaröfgar hafa heldur ekki verið sérlega áberandi og kynþáttanið ekki heldur. Það má kannski telja Íslendingum til tekna að þeir séu frekar umburðarlynd þjóð – stundum jafnvel kærulausir. Gay Pride hátíðin er einhver stærsta fjölskylduskemmtun ársins á Íslandi – þá safnast tugþúsundir karla, kvenna og barna saman í miðborg Reykjavíkur. Og þegar Jóhanna Sigurðardóttir tók við embætti forsætisráðherra hafði enginn orð á því á Íslandi að hún væri samkynhneigð. Menn kærðu sig alveg kollótta og svo er enn. Það þurfti erlenda fjölmiðla til að benda Íslendingum á þessa staðreynd.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Jón vill breyta þessu við hátíðleg tækifæri – „Þurfum við ekki að taka höndum saman“

Jón vill breyta þessu við hátíðleg tækifæri – „Þurfum við ekki að taka höndum saman“
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ólík viðbrögð við hatri

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ólík viðbrögð við hatri
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Vilhjálmur bálreiður út í ríkisstjórnina

Vilhjálmur bálreiður út í ríkisstjórnina
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Thomas Möller skrifar: Stöðugleiki skiptir mestu máli

Thomas Möller skrifar: Stöðugleiki skiptir mestu máli
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Forpokaðir fordómagrísir haldnir forréttindablindu ráðast gegn minnihlutahóp

Orðið á götunni: Forpokaðir fordómagrísir haldnir forréttindablindu ráðast gegn minnihlutahóp
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Okkur hefur mistekist hrapallega á húsnæðismarkaði

Sigmundur Ernir skrifar: Okkur hefur mistekist hrapallega á húsnæðismarkaði
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Blásið til sóknar fyrir alla – ekki bara Range Rover, Benz og Porsche liðið heldur alla

Svarthöfði skrifar: Blásið til sóknar fyrir alla – ekki bara Range Rover, Benz og Porsche liðið heldur alla
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Nína Richter skrifar: Popúlismi er tæki og við erum fólk

Nína Richter skrifar: Popúlismi er tæki og við erum fólk