Aðalpersónan í Einvíginu, nýjustu skáldsögu Arnalds Indriðasonar, heitir Marion Briem.
Það kemur ekki almennilega fram í bókinni hvort Marion er karlkyns eða kvenkyns. Nafnið lætur það ekki uppi – og Arnaldur skrifar sig framhjá því.
Þetta er skemmtilegur leikur af hálfu höfundarins – við ræðum hann aðeins í Kiljunni í kvöld.
Arnaldur er gamall kvikmyndaskríbent og hann hefur ekki þurft að leita langt yfir skammt að nafninu Marion.
Marion Morrison var nefnilega hið raunverulega nafn Johns Wayne, þess erkikarlmennis.
Fræg er sagan af því þegar Wayne var að leika í kvikmyndinni The Alamo ásamt breska leikaranum Laurence Harvey,
Wayne sagði eitthvað á þessa leið:
„Þú labbar eins og stelpa, Larry.“ (You walk like a girl, Larry.)
En Harvey mun hafa svarað að bragði:
„Truflar það þig eitthvað, Marion?“ (Do you have a problem with that, Marion?)
Annars er eitt karlmannsnafn í íslensku sem gæti líka verið kvenkynsnafn ef út í það er farið. Það er nafnið Sturla – sem er nokkuð algengt – og svo er það líka nafnið Órækja sem er ekki notað lengur.