Í Kiljunni í kvöld fjöllum við um nýútkomna bók með ljósmyndum eftir Emil Edgren. Hann var hermaður á Íslandi í stríðinu og tók ljósmyndir sem nú eru komnar á bók eftir skemmtilegum krókaleiðum. Bókin nefnist Dagbók frá veröld sem var, en Edgren er enn á lífi í hárri elli og býr í Kaliforníu. Við rýnum í bókina og skoðum nokkra staði í Reykjavík og Hafnarfirði þar sem Edgren tók ljósmyndir sínar með aðstoð Silju Aðalsteinsdóttur og Eggerts Þórs Bernharðssonar.
Guðmundur Andri Thorsson kemur í þáttinn og segir frá nýútkominni bók eftir sig sem nefnist Valeyrarvalsinn.
Við förum í heimsókn til Guðmundu Elíasdóttur söngkonu, en nú er verið að endurútgefa fræga ævisögu hennar, Lífsjátningu, sem Ingólfur Margeirsson skráði fyrir þremur áratugum.
Páll Baldvin og Kolbrún fjalla um tvær nýjar skáldsögur: Konu við 1000 gráður eftir Hallgrím Helgason og Hálendið eftir Steinar Braga.
Bragi talar um ýmislegt smálegt, þar koma meðal annars við sögu Halldór Laxness, Sjón og mæðgurnar Ásgerður Júníusdóttir og Guðrún Guðlaugsdóttir og íslenskir embættismenn.