Nú er það svo að vart má sjá á milli hvort hefur gefist verr á Íslandi ríkisrekstur eða einkarekstur á bönkum.
Jú annars, einkareksturinn hefur gefist verr.
Ríkisbankarnir voru spilltir og lélegir – þeir voru ofurseldir stjórnmálaflokkunum og í gegnum þá var lánað fé til þeirra sem þeir höfðu velþóknum á. Þetta var afar slæmt kerfi og í því fólst mikil sóun.
En það keyrði náttúrlega um þverbak þegar bankarnir voru einkavæddir. Þá hófst glórulaust rugl og sjálftaka nýrra eigenda – sem voru líka pólitískir vildarvinir – og endaði með því að bankarnir sukku og tóku þjóðarbúið með.
Síðan voru tveir bankar einkavæddir aftur í hendurnar á kröfuhöfum – það kann að vera skiljanleg ákvörðun í ljósi þess að annars hefði ríkið þurft að láta stórfé í þá – en um leið er þetta afar slysalegt. Nú er sagt að bankarnir séu eign erlendra vogunarsjóða sem hafa fyrst og fremst áhuga á skammtímagróða.
Bankastjóri Landsbankans stígur fram á fundi LÍÚ – Landsbankinn er einn helsti verndari þeirra samtaka – og krefst þess að bankinn sinn verði einkavæddur hið fyrsta.
En væri kannski ráð að bankastjórinn setti hlutina í sögulegt samhengi – þar má til dæmis nefna braskvæðingu útgerðarinnar sem Bandaríkjamaðurinn Michael Lewis hefur lýst ágætlega – og gætti þess fyrst og síðast að vera trúr yfir því sem íslenska ríkið hefur falið honum.