Jóhanna Sigurðardóttir er enn að tala um að ljúka viðræðum við Evrópusambandið fyrir kosningar sem á að halda ekki síðar en í snemma vors 2013.
Æ fleiri koma fram og segja að þetta sé ómögulegt, þeir hafa báðir lýst þeirri skoðun í Silfri Egils Eríkur Bergmann Einarsson, einn helsti sérfræðingur okkar um ESB, og Þorsteinn Pálsson sem situr í samninganefndinni.
Jóhanna er að líkindum fallin á tíma með þetta – en hún er ekki farin að viðurkenna það.
Inn í þetta spilar náttúrlega pólitík hér heima og hagsmunir Samfylkingarinnar. Hún er eini flokkurinn sem er heill að baki umsóknarinnar og gæti skapað sér vígstöðu í kosningum vegna þessa, þótt nær öruggt virðist að aðildin verði felld. Innifalin er sú hugmynd að Sjálfstæðisflokkurinn gæti lent í vandræðum í þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB, fylkingarnar í flokknum riðlast verulega.
Það getur samt enginn haldið því fram að þetta sé góður tími til að semja við Evrópu. Mikið uppnám ríkir vegna evrunnar – það er öldugis óvíst um framhald evrusamstarfsins. Það er reyndar nokkuð grunnfærið að benda bara á Grikkland þegar talað er um Evrópu, því í sambandinu eru líka Norðurlöndin, Holland, Þýskaland – og svo Eystrasaltslöndin sem eru að koma betur út úr efnahagskreppunni en á horfðist. En það breytir því ekki að óvissan er mikil – og stjórnendur helstu ríkja Evrópu eru ekki að sýna mikla leiðtogahæfileika.
ESB er stærsta mál Samfylkingarinnar, en kannski þarf hún að átta sig á að það er erfitt að hraða umsóknarferlinu á þessum tíma, þegar ástandið í Evrópu er eins og það er og fylgið við Evrópusambandsaðild dræmt hér heima. Það gæti hugsanlega verið ráð að fara hægt – bíða aðeins og sjá.