Dauðdagar fallinna harðstjóra eru einatt sóðalegir – þegar loks allir snúa baki við þeim. Því miður er ekki oft að haldin eru settleg réttarhöld yfir þeim.
Gaddafi var dreginn særður út úr röri þar sem hann var í felum og skotinn eins og hundur.
Ceausescu var settur fyrir skyndidómstól og skotinn ásamt konu sinni, ófreskjunni Elenu. Þau mótmæltu ákaft.
Saddam fékk að vísu sitt réttarhald – en svo var hann hengdur.
Þetta minnir á Mussolini sem var limlestur af múg í Mílanó í lok stríðsins.
Hitler fyrirfór sér og líkið af honum var brennt, Stalín fékk heilablóðfall og skíthræddir undirmenn hans slepptu því að kalla á lækni. Hann lá lengi rorrandi milli lífs og dauða.
Þegar þeir eru dauðir syrgir enginn þessa menn sem allir beygðu sig og bukkuðu fyrir áður.