Meðal gesta í Silfri Egils á morgun verður Richard Wilkinson. Hann er ásamt Kate Pickett höfundur bókarinnar The Spirit Level: Why More Equal Societies Almost Always Do Better.
Þessi bók vakti feikilega athygli þegar hún kom út og var eitt aðalumræðuefnið í stjórnmálum í Bretlandi í fyrra. Meðal þeirra sem tóku hana til umræðu voru David Cameron forsætisráðherra og Milband bræðurnir úr Verkamannaflokknum.
Kenning bókarinnar er sú að samfélögum þar sem jöfnuður ríkir vegni betur en þar sem ójöfnuður er mikill – þetta er stutt ýmsum gögnum og samanburðarransóknum. Wilkinson kemur að efninu úr nokkuð óvenjulegri átt – hann hefur eytt ævinni í rannsóknir á heilsufari og á sviði faraldursfræði.