Fyrir tíu árum kom út bók eftir Herdísi Helgadóttur þar sem hún lýsti ástandinu. Bókin nefnist Úr fjötrum.
Ástandið var það kallað þegar íslenskar konur lögðu lag sitt við breska og bandaríska hermenn til stríðinu.
Þetta var útmálað sem hið versta siðleysi – það var talað um vændi – konur sem voru grunaðar um að vera í ástandinu voru ofsóttar og hæddar. Það var settur á stofn sérstakur dómstóll vegna þessa og stúlkur voru lokaðar inni á stofnunum.
En Herdís sagði að þetta hefði að vissu leyti verið eins og frelsun undan durtshættinum í íslenskum karlmönnum. Samfélagið hefði opnast, og nýr heimur blasað við konunum. Meðal hermannanna voru karlar sem kunnu að umgangast konur af kurteisi og hæversku sem sárlega vantaði á Íslandi.
En hið íhaldssama íslenska samfélag brást ókvæða við – það er einföldun að segja að það hafi einungis verið karlaveldið – því siðapostular meðal kvenna voru líka í herferð gegn ástandinu. Að einhverju leyti blandaðist þarna inn í andúð á útlendingum og tortryggni einangraðrar smáþjóðar.
Hér á vefnum fjallkonan.is eru nokkur brot úr bók Herdísar, þrjú dæmi:
„Þegar við mættum í skólann um haustið 1940 var okkur sagt að það væri brottrekstrarsök ef við skiptum okkur af hermönnunum….þetta var fanatík og vitleysa. Allar stúlkur sem sáust tala við hermenn, þótt þeir væru kannski bara að spyrja til vegar…. voru bara „Bretamellur “ ….Það voru svo mikilir hleypidómar… “
Herdís Helgadóttir: Úr fjötrum. Íslenskar konur og erlendur her . Rv. 2001. bls. 185-186.
„Ég man að gift kona í næsta húsi við okkur tók að sér hermannaþvott….Umgangur hermanna um götuna jókst við þetta og sumir nágrannanna fussuðu og sveiuðu yfir þessu óþjóðlega háttarlagi velgiftrar konunnar. Hún hætti þessu eftir nokkrar vikur. Ég heyrði að eiginmaðurinn hefði bannað henni að afla sér tekna á þennan hátt og er viss um að umtal nágrannanna skipti þar meginmáli. “
Herdís Helgadóttir: Úr fjötrum. Íslenskar konur og erlendur her. Rv. 2001. bls. 121-122.
„Hermenn voru svo kurteisir og hjálpsamir. Íslenskir karlar gösluðust áfram og tóku ekkert tillit til kvenna, sýndu þeim bara ókurteisi…. “
Herdís Helgadóttir: Úr fjötrum. Íslenskar konur og erlendur her. Rv. 2001. bls. 182.
En því nefni ég þetta að á sunnudaginn flytur útvarpsleikhúsið leikritið Ástand, en höfundur og leikstjóri þess er Ásdís Thoroddsen. Um það má lesa hér – Ásdís segir að bráðabirgðalög þar sem settur var á stofn sérstakur ungmennadómstóll vegna ástandsins hafi verið stjórnarskrárbrot.
Bjarni Guðmarsson og Hrafn Jökulsson rituðu bók um Ástandið og stríðsárin fyrir allmörgum árum.