Það virðist vera að þjóðin standi frammi fyrir nokkuð alvarlegum túlkunarvanda á stjórnarskránni.
Í henni segir, elleftu grein:
„Forseti lýðveldisins er ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum. Svo er og um þá, er störfum hans gegna.“
Og í þrettándu grein:
„Forsetinn lætur ráðherra framkvæma vald sitt.“
Og í fjórtándu grein:
„Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum.“
Þau Kristján Eldjárn og Vigdís Finnbogadóttir tóku þetta nokkuð bókstaflega. Þau héldu sig mjög til hlés gagnvart stjórnmálum. Skilningur Sjálfstæðisflokksins, voldugasta stjórnmálaaflsins, var líka alltaf verið í þessum anda – og er líklega enn – aðrir flokkar hafa nokkuð látið pólitíska vinda ráða afstöðu sinni til forsetans.
En skilningur Ólafs Ragnars Grímssonar er allt annar, hann skrifar í hvassyrtu bréfi til Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra:
„Forseti Íslands er þjóðkjörinn þjóðhöfðingi sem er ábyrgur gagnvart þjóðinni. Hann heyrir ekki undir forsætisráðuneytið, hvorki valdsvið ráðherra né embættismanna þess. Forsætisráðherra og embættismenn forsætisráðuneytisins hafa ekki boðvald yfir forseta eða geta gefið út tilskipanir um starfshætti hans.“
Það er deilt um hvort eða hvernig eigi að breyta stjórnarskránni – en þarna er óvissa sem varla verður unað við til lengdar.