Það hefur legið lengi fyrir að mjög ósennilegt væri að álver risi við Húsavík.
Á miklum bjartsýnistíma var skrifað undir viljayfirlýsingar – það var þegar allt var um koll að keyra vegna þenslu á Íslandi og víðar.
Kannski var útlátalaust að skrifa undir þetta plagg, en þegar harðnar á dalnum kemur í ljós að hann var ekki raunhæfur.
Landsvirkjun getur ekki útvegað orkuna sem þarf í álverið – og það öruggt að hún getur heldur ekki útvegað hana á verði sem álfyrirtækjum þykir nógu lágt.
En orkan þarna nyrðra er ekkert á förum og það þarf að finna leiðir til að nýta hana þannig að hún skapi störf og velferð – helst umfram það sem álvers- og virkjanaframkvæmdir geta skapað í stuttan tíma.
Í þessu sambandi má benda á athyglisverða grein sem Heiðar Már Guðjónsson skrifaði í Fréttablaðið í síðustu viku undir yfirskriftinni Hvað höfum við lært?. Hann ræðir meðal annars um hversu mikið óráð hinar ríkisreknu framkvæmdir við Kárahnjúka hafi verið:
„Ríkisrekin uppbygging stóriðju, sem hafði í för með sér fjárfestingu og innspýtingu í hagkerfið upp á 25% af þjóðarframleiðslu, átti sér stað á einungis 5 árum, þrýsti mjög á raunhagkerfið og ýtti enn frekar undir þenslu.
Samrekstur viðskipta-og fjárfestingabanka, með öðrum orðum sparisjóðs og spilavítis, náði nýjum hæðum og hagkerfið sló heimsmet í stærð fjármálakerfis, sem náði að verða 10 föld þjóðarframleiðsla.
Þegar stóriðjuframkvæmdum lauk, sem varð á sama tíma og þrengdi mjög að alþjóðlegum fjármálamörkuðum, hvarf innstreymi í krónuna á augabragði, og alger viðsnúningur varð í fjármagnsflutningum. Bankarnir, Seðlabankinn og stjórnvöld voru algerlega berskjölduð fyrir þessum snöggu breytingum, þó að hættumerki og viðvaranir hefðu verið áberandi um nokkurt skeið.
Það er einfalt að laga þessi 4 atriði. Upptaka nýrrar myntar þarf ekki að taka meiri tíma en nokkrar vikur. Ítarlega hefur verið fjallað um einhliða upptöku eða gjaldmiðlasamstarf við t.d. Kanada og slíkir kostir eru í boði.
Setja á takmörk á hallarekstur hins opinbera og inngrip þess í hagkerfið. Keynes sagði sjálfur að þegar hið opinbera væri farið að taka meira en 25% af hagkerfinu, á Íslandi í dag er það nær 50%, þá væri til einskins að auka útgjöld hins opinbera, heldur ætti alltaf að minnka umsvifin.
Ekkert hagkerfi ræður við 25% fjárfestingu á örfáum árum einsog gerðist í kringum virkjun Kárahnjúka og tengda stóriðju. Þar við bætist að arðsemi verkefnisins er engin, því miður. Ríkið er ekki rétti aðilinn til að hagnýta tækifæri á hagkvæman hátt. Ríkið skapar aldrei varanlegan hagvöxt, það gerir einkaframtakið.
Allur heimurinn á nú í vandræðum vegna samreksturs viðskipta- og fjárfestingabanka. Það telst seint vera kapítalismi að ríkið tryggi ákveðna atvinnugrein, það er frekar sósíalismi. Þar sem nær allt íslenskt bankakerfi er nú í eigu erlendra spákaupmanna, þ.e. núverandi kröfuhafa gömlu bankanna, er hægur vandi að klippa á þennan hættulega samrekstur.“