HMV, stærsti söluaðili geisladiska og mynddiska í Bretlandi, ætlar að loka sextíu búðum eftir lélega jólaverslun. Verslanakeðjan stóð reyndar mjög illa fyrir.
Sömu sögu er að segja vestanhafs, búðir sem selja tónlist og kvikmyndir, hafa lokað unnvörpum.
Markaðurinn er allt annar en hann var. Bókabúðir eru líka í vandræðum og snúa sér í auknum mæli að því að selja gjafavöru.
Barnes & Noble, stærsta bókaverslanakeðja Bandaríkjanna, á í rekstarörðugleikum. Það er tímanna tákn að þegar maður gengur inn í verslun hjá Barnes & Noble mæta manni lestölvur sem eru til sölu á kostakjörum.
Í staðinn er fólk að kaupa tónlist, kvikmyndir, sjónvarpsþætti og lesefni í gegnum tölvur – eða jafnvel að stela efninu.
Það hefur komið sérstaklega illa við tónlistarbransann. Tekjur tónlistarmanna hafa hríðfallið og markaður fyrir það sem eitt sinn kallaðist hljómplata – heillegt verk með allt upp í klukkutíma af músík þar sem líka er lögð áhersla á umbúðirnar – er á hverfanda hveli.
Í kvikmyndahúsunum er svo varla hægt núorðið að bjóða upp á annað en myndir sem höfða til unglinga. Myndir eru í stórum stíl gerðar í þrívídd, það er gömul tækni sem var búið að henda á haugana, en var dregin upp til að telja kvikmyndahússgestum trú um að þeir næðu að upplifa eitthvað í bíó sem þeir sæju ekki framan við sjónvarpið eða tölvuna heima.
Hvort þetta er góð þróun – maður er ekkert svo viss um það?