Jean Claude-Piris, fyrrverandi yfirmaður lögfræðideildar Evrópusambandsins, er hreinskilinn í viðtali við Fréttablaðið. Hann segir að Ísland sé engin guðsgjöf til Evrópusambandsins, heldur myndi með inngöngu Íslands fyrst og fremst bætast við smáþjóð sem þarf að taka tillit til.
Sumir hafa látið eins og Ísland sé einhvers konar gullland, El Dorado, sem Evrópusambandið ásælist.
Staðreyndin er samt sú að auðindirnar sem við höfum hér virðast vera nægar til að þjóðin geti lifað þokkalegu lífi, að minnsta kosti þegar vel árar, en svosem ekki mikið meira en það.
Evrópusambandið mun áfram fá íslenskan fisk á markaði sína hvort sem Íslendingar ganga inn eða ekki – orkan hér er ekki í slíku magni að skipti einhverjum sköpum fyrir Evrópu.
Piris talar líka um norðurslóðir, en talsvert hefur verið gert úr því að aðild Íslands gæti verið liður í sókn Evrópusambandsins þangað (um daginn birtist reyndar grein eftir andstæðing aðildar sem skammaðist yfir því að ESB vildi fara eins að með Norðurskautið og Suðurskautið – Suðurskautið er reyndar flokkað sem sameign mannkyns og meira og minna friðað svo það er kannski ekki svo slæm tilhugsun að líkt verði farið að með Norðurskautið áður en umhverfið þar verður eyðilagt).
Piris er spurður að því hvort Evrópusambandið vilji komast á norðurslóðir?
„Og gera hvað? Hvað þýðir það „að komast á norðurslóðir“? Við erum ekki hernaðarbandalag og Ísland er hvort sem er stofnfélagi í NATO. Þið finnið vonandi olíu, en við eigum ekki þær auðlindir sem eru í aðildarríkjunum, eða stjórnum siglingaleiðunum eða þess háttar. Á hverju nákvæmlega ættum við að hafa áhuga? Norðurslóðir eru kannski agnar-áhugaverðar en ekki svo mjög, ef ég á að vera heiðarlegur. Svo ná ESB-ríkin Svíþjóð og Finnland fyrir ofan norðurheimskautsbaug líka.“