Atburðirnir í Egyptalandi eru ótrúlega dramatískir. Búið að setja á útgöngubann í borgum, loka fyrir internetið og setja Mohammed el Baradei í stofufangelsi.
Í Egyptalandi hefur ríkt hernaðareinræði. Þegar maður kemur þangað sér maður hvarvetna herbúðir og hermenn á ferli. Með þessu hefur Hosni Mubarak haldið völdum allar götur síðan Anwar Sadat var myrtur 1981. Ætlun hans er að sonur hans taki við völdum.
Egyptaland er óhemju mikilvægt. Það hefur miðlæga stöðu bæði í múslimaheiminum og í Miðausturlöndum. Bandaríkin geta ekki hugsað sér að missa sinn sinn helsta bandamann á svæðinu, enda hafa þeir dælt peningum þangað inn um langt árabil – allar götur frá því Sadat sneri við blaðinu og varð afhuga Sovétríkjunum.
Bandaríkin óttast að hreyfingar öfgamúslima nái ítökum í landinu, en Mubarak hefur bælt þær niður af hörku. En hins vegar er það stórveldinu varla til sóma að styðja hernaðareinræði, séstaklega ekki ef það ætlar að beita ofbeldi gegn borgurum sem krefjast lýðræðis.