Góð vinkona mín verður jarðsungin í Dómkirkjunni í dag. Það er Kristín Laufey Ingólfsdóttir – eða Laufey eins og hún var alltaf kölluð. Hún andaðist á elliheimilinu Grund 22. janúar, en hafði lengst af búið rétt þar hjá, á Brávallagötu. Laufey hélt upp á 100 ára afmæli sitt síðastliðið sumar með fjölda afkomenda, mér skilst að langömmubörn og langlangömmubörn séu komin á fjórða tuginn.
Ég hitti Laufeyju ekki oft í seinni tíð, en mér þótti alltaf einstaklega vænt um hana og hugsaði oft til hennar. Nokkrar minningar um hana í bernsku ljóma í huga mínum. Best var þegar hún hughreysti mig þegar ég var í aftasta sæti í víðavangshlaupi í Hljómskálagarðinum. Keppendur í mínum flokki voru reyndar bara þrír svo ég fékk bronspening, en fannst það samt heldur fúlt. Mér hlýnar enn um hjartarætur þegar ég hugsa um hvað hún var skilningsrík við þennan litla dreng.
Laufey var amma Snorra sem var einn af bestu vinum mínum, bjó hinum megin við sundið sem heimamenn nefna Bakkó – fjölskylda mín var á Ásvallagötunni og hefur móðir mín búið þar síðan 1939, en Laufey og fjöskylda hennar var á Brávallagötu 26 og hafa líka verið þar í marga áratugi.
Laufey var einstaklega hýr, skemmtileg og klár kona. Það var alveg sama þótt aldurinn færðist yfir hana og sjónin dapraðist, það var alltaf jafn gaman að því að hitta hana á förnum vegi. Tilsvörin voru hnyttin, viðmótið glaðlegt og hlýtt.
Síðast hittumst við í fyrra þar sem hún sat með nokkrum afkomendum sínum á veitingahúsi við Laugaveginn. Ég kalla það gott – þá hefur hún líklega verið 99 ára.
Laufey var ekki bara amma Snorra. Ég hef kynnst mörgum úr fjölskyldu hennar, var heimagangur á Brávallagötunni enda þurfti maður bara að hlaupa yfir bakgarðinn. Þetta var alltaf mannmargt hús og iðaði af fjöri. Laufey var gift miklum sómamanni, Margeiri Sigurjónssyni sem andaðist árið 1987. Margeir rak um árabil fyrirtæki sem hét Steinavör, af honum er til fræg ljósmynd þar sem hann er drengur á sendlahjóli í Reykjavík gamla tímans. Þau Margeir og Laufey bjuggu um nokkurt skeið í Færeyjum, það er líklega ástæða þess að hin skapstóra Maren frá Færeyjum bjó í kjallaranum á Brávallagötu.
Börn Laufeyjar eru Margrét, Guðjón, Lilja, Ingólfur og Óskar. Margrét á Ívar, Margeir, Snorra, Laufeyju, Lilju og Ingólf – hjá elstu drengjunum heyrði ég fyrst plötur með Bítlunum og Dylan. Lilja er móðir Ólafs Flosasonar sem var líka oft á Brávallagötunni hjá ömmu sinni, í æsku var hann einhver mesti fjörkálfur sem ég hef kynnst. Ingólf þekkja allir, hann er rithöfundur og einn fremsti blaðamaður þjóðarinnar og hefur nú menntað sig í sagnfræði. Óskar er sérstakur heiðursmaður og hefur verið mjög handgenginn móður sinni alla tíð.
Hér er viðtal sem Jónas Margeir Ingólfsson, sonur Ingólfs Margeirssonar, tók við ömmu sína þegar hún varð hundrað ára. Þar minnist hún meðal annars spænsku veikinnar og þegar hún lék sér úti frostaveturinn mikla.