fbpx
Föstudagur 22.ágúst 2025
Eyjan

Magnús Geir: Ég fokking nenni þessu ekki

Egill Helgason
Fimmtudaginn 27. janúar 2011 12:14

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Magnús Geir Eyjólfson, blaðamaður á Pressunni, skrifaði pistil í gær sem hefur farið víða. Yfiskriftin er Ég fokking nenni þessu ekki. Ég er ekki frá því að hann túlki vel hvernig mörgum er innanbrjósts þessa dagana. Ég leyfi mér að birta pistil Magnúsar í heild sinni:

— — —

„Er til of mikils mælst að við gerum einn hlut rétt? Bara einn? Ég bið ekki um meira. Og það í sátt og samlyndi.

Stjórnlagaþingsklúðrið í gær er bara lokahnykkurinn á samfelldu martraðarskeiði sem hófst með upprisu hins svokallaða Nýja Íslands. Þetta fallega land okkar, sem hefur ótal tækifæri og margt upp á að bjóða, er orðið að rassgati alheimsins. Og það er sjálfum okkur að kenna.

Hvað er Nýja Ísland? Fyrir hvað stendur það? Ef ég ætti að svara þá er það heift, öfund, undirlægjuháttur, spilling, minnimáttarkennd, klíkumyndun og fáfræði. Þetta eru Íslandssyndirnar sjö.

Stjórnmálamennirnir og fylgihnettir þeirra hafa leitt vagninn í þessu öllu saman. Þeir leggja sig fram um að gera einstaklinga tortryggilega á allan mögulegan hátt. Þingmaður Framsóknarflokksins birti á dögunum „dauðalista“ yfir þá sem starfað hafa í Landsbankanum, bendlaði þá alla við einn stjórnmálaflokk og svo gott sem sagði að þeir væru óæskilegir í samfélaginu. Skilaboðin: Þeir sem unnu í banka í góðærinu eru holdsveikir og ættu helst að fara til Bangladess.

Nú vill þingmaður Sjálfstæðisflokksins fá að vita hverjir hafa verið viðmælendur í fréttum og fréttatengdum þáttum á RÚV. Hefur hann ekkert annað að gera en að sá tortryggnisfræjum? Mín skilaboð: Farðu nú að vinna þá vinnu sem ég er að borga þér fyrir. Þú hefðir betur eytt tímanum og orkunni í að fara yfir reglur stjórnlagaþings heldur en að velja þér einstaklinga til að pönkast á.

ESB umræðan er á sama plani. Ef þingmenn hefðu í alvöru nennt að kynna sér aðildarferlið áður en þingið kaus um það, þá gætum við í alvörunni verið að ræða málefnið sjálft heldur en einhverjar barnalegar þrætur um aðlögun eða ekki. Þetta lá allt fyrir. En menn voru of uppteknir að saka hvern annan um landráð í ræðustól og því fór þetta framhjá öllum.

Ekki eru bisnessmennirnir okkar að slá í gegn. Bankarnir ráða óhikað til sín menn sem voru lykilmenn í samkeppnislagabrotum. Annar varð bankastjóri og hinn forstöðumaður. Einhverra hluta vegna er viðhorfið hérna að samkeppnislagabrot er talið mönnum til tekna. Þeir eru ekki ósiðlegir, heldur alvöru keppnismenn.

Nokkrir einstaklingar keyrðu risaverktakafyrirtæki á bólakaf. Bankinn hirðir fyrirtækið, selur leppum þessara sömu einstaklinga arðvænlega bitann en heldur eftir ruslinu og færir það sem tap. Þremur mánuðum síðar – talan 3 – eru þeir búnir að kaupa helmingshlut af leppnum.

Símafyrirtæki njósnar um viðskiptavini keppinauta sinna og notar upplýsingarnar í markaðslegum tilgangi. Njósnar! Fyrirtækið vissi allt um símanotkun þessara símnotenda og notaði þessar upplýsingar til að lokka til sín viðskiptavini. Kemur svo með auma (aumustu?) afsökun um að það vissi ekki að þetta væri ólöglegt athæfi. Hvaða tryggingu hef ég fyrir því að þetta sama fyrirtæki fylgist ekki með netnotkun minni? Til dæmis að það geti skoðað nákvæmlega hvaða vefsíður ég er að skoða, hversu miklu ég hala niður, hvað ég er lengi á netinu o.s.frv.

Hérna er ótæmandi listi yfir mál sem annað hvort eru umdeild eða hefur verið hnakkrifist um á síðustu mánuðum: Icesave, ESB, Magma, Vestia, þingflokkur VG, staðgöngumæðrun, einkavæðing bankanna (síðari), AGS, skuldir heimilanna, stjórnlagaþing, kvótakerfið, landbúnaður, sameining ráðuneyta, rannsókn bankahrunsins, Landsdómur, kjarasamningar, einkasjúkrahús, gagnaver, strætó, Orkuveitan, virkjanir, vegtollar, skilanefndir bankanna, kirkjan…

Hér er tæmandi listi yfir það sem sátt er um í þjóðfélaginu: Íslenska handboltalandsliðið.

Allt þetta smitar út í samfélagið. Það er nóg að skoða blogg, lesa kommentakerfi netmiðla, er.is og aðrar spjallsíður. Alls staðar eru Íslandssyndirnar sjö áberandi. Er það furða að Íslendingar, mestmegnis ungt fólk, flýi land?

Sjálfur gjói ég augunum reglulega á hnöttinn sem liggur á náttborði frumburðarins. Ég hugsa oft um sænskt velferðarkerfi, frjálslynt viðhorf Kanadamanna, skipulag Þjóðverja, nálægðina við Goodison Park og frelsið í New York. Ég hugsa aldrei um Noreg. Ekki heldur Hólmavík (innanhúss brandari).“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Arfleifð Egils í Borgarnesi

Óttar Guðmundsson skrifar: Arfleifð Egils í Borgarnesi
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Gamalkunnur söngur bankanna ómar – þarf kannski bara að breyta leikreglunum?

Orðið á götunni: Gamalkunnur söngur bankanna ómar – þarf kannski bara að breyta leikreglunum?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson: Hvers vegna voru tillögur um afturköllun umsóknar svæfðar í tíð Sigmundar Davíðs og Guðlaugs Þórs?

Þorsteinn Pálsson: Hvers vegna voru tillögur um afturköllun umsóknar svæfðar í tíð Sigmundar Davíðs og Guðlaugs Þórs?
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sverð og skildir íslenskra hagsmuna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sverð og skildir íslenskra hagsmuna
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Óttar Guðmundsson skrifar: Minnisleysi ráðherrans

Óttar Guðmundsson skrifar: Minnisleysi ráðherrans
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Tvær konur berjast um fjöregg Framsóknar – styttist í flokksþing

Orðið á götunni: Tvær konur berjast um fjöregg Framsóknar – styttist í flokksþing