Tölur um hagvöxt í Bretlandi sem birtust í gær eru áfall fyrir David Cameron og stjórn hans.
Vöxturinn mælist nánast enginn. Því er meðal annars kennt um að miklir kuldar hafi verið í Bretlandi að undanförnu, en áhyggjurnar beinast fremur að stefnu stjórnarinnar sem byggir á því að koma fjármálum ríkisins í lag með miklum niðurskurði og skattahækkunum.
Á meðan funda stjórnmálaleiðtogar og fjármálafurstar og ráðgjafar þeirra í Davos líkt og á hverju ári.
Larry Eliot skrifar í Guardian um fundinn og segir að tvöföld kreppa vofi ekki yfir Davos eins og í fyrra. Það sé aðeins léttara yfir fundarmönnum.
Hins vegar séu mörg vandamáli sem steðji að. Eitt er efnahagsbatanum á Vesturlöndum hefur ekki fylgt aukin atvinna, annað er hækkandi verð á hrávöru og olíu og svo eru það ríkisfjármálin í Bandaríkjunum en fjárlagahallinn þar heldur áfram að vaxa.
Stjórnvöld í Washington hafa farið þá leið að eyða sig út úr kreppunni og segir Nouriel Roubini – sem einnig er kallaður Dr. Doom – að mikil vá sé á ferðum ef Bandaríkin haldi áfram á þessari braut.
Hagfræðin er óviss vísindi: Samkvæmt þessu eru þeir semsagt of aðhaldssamir í Lundúnum en of eyðslusamir í Washington. Á meðan eru Þýskaland og Kína á blússandi ferð – en auðvitað spurning hvað það endist.