Að sumu leyti hefur manni fundist umræðan um REI vera dálítið gaga. Ekki bara vegna minnisleysis, leynipukurs og furðulegra hugmynda um meðferð almannafjár, heldur líka vegna þess hversu sumir þeir sem fjalla um málið eru duglegir við að skammast út í það sem þeir aðhylltust áður. Það er eins og hafi gripið um sig nýr rétttrúnaður sem er allt öðruvísi en rétttrúnaðurinn fyrir nokkrum mánuðum síðan.
En það er kannski hverjum manni hollt að skipta reglulega um skoðun.
Björn Ingi Hrafnsson bendir leiðara Morgunblaðsins frá 5. desember 2006 á vefsíðu sinni. Þar er fjallað um orkuútrásina í nokkuð öðrum tóni en hefur tíðkast í ritstjórnargreinum blaðsins síðustu vikurnar. Leitið að zetunni og þá vitið þið hver höfundur leiðarans er:
„Bæði kunnáttuna og fjármagnið hafa íbúar Xian Yang nú fengið frá Íslendingum. Hitaveitan er samstarfsverkefni heimamanna og EnexKína en að því fyrirtæki standa Orkuveita Reykjavíkur, Glitnir og Enex, vettvangur íslenzkra þekkingarfyrirtækja í orkuvinnslu. Í þeirri þróun sem hafin er með þessu verkefni í Xian Yang geta falizt gífurleg tækifæri fyrir íslenzk fyrirtæki.“