Það er kannski ekki alveg tímabært að fara að ræða hver eigi að vera forseti Íslands einu og hálfu ári fyrir næstu forsetakosningar.
Það væri kannski nær að ræða hvernig forseta við viljum hafa. Við höfum fordæmin, hin nokkurn veginn ópólitísku Kristján Eldjárn og Vigdísi, sem hugsuðu aðallega um virðingu og virðuleika embættisins. Svo Ólaf Ragnar Grímsson sem hugsaði á fyrri hluta ferils síns aðallega um að kynna Ísland erlendis en fór svo að taka aukinn þátt í stjórnmálabaráttu heima fyrir.
Nú stendur fyrir dyrum Stjórnlagaþing þar sem eitt verkefnið verður að ákvarða stöðu og verksvið forsetans. Sumir vilja jafnvel leggja niður embættið – aðrir vilja kjósa forsætisráðherra beinni kosningu en það myndi hafa mikil áhrif á stöðu forsetans.
En það er haldið áfram að tala um hver eigi að vera forseti eins og ekkert hafi í skorist – sem er í besta falli samkvæmisleikur. Spurningin er miklu fremur hvernig forseta og hvernig forsetaembætti við viljum – og hvort við viljum hafa það?