Það liggur við að maður öfundi Spaugstofuna.
Hin dularfulla tölva í Alþingishúsinu er eitthvert skoplegasta mál sem hefur komið hér upp lengi – og er þó af nógu að taka.
Margt hefur reyndar verið harmskoplegt – en þetta er eins og í besta farsa.
Það er strax búið að ákveða að Birgitta, Hreyfingin og WikiLeaks standi þarna að baki – og í Mogganum birtist alvarlegur leiðari um öryggi ríkisins.
Samt skilur enginn hvað meintir tölvuþrjótar hefðu átt að vera að njósna um.
Störf Alþingis – er það ekki frekar eitthvað sem menn reyna að leiða hjá sér.
En Spaugstofan fær úr nægu að moða annað kvöld.