Kristinn H. Gunnarsson, fyrrverandi alþingismaður, skrifar um gjaldþrot Eyrarodda og kvótakerfið á heimasíðu sína. Í greininni segir meðal annars:
„Gjaldþrot Eyrarodda á Flateyri beinir kastljósina að helstu meinsemdinni í kvótakerfinu, ríkisstyrknum sem handhöfum kvótans er færður með framsalinu. Ríkið veitir árlega heimildir til veiða á tilteknu magni á tilgreindum fisktegundum svo gott sem ókeypis. Þrátt fyrir að veiðigjald hafi verið sett á með lögum fyrir tæpum áratug til þess að sætta þjóðina við kvótabraskið hefur það verið flest árin aðeins á bilinu 1-2 k/kg fyrir að veiða 1 kg af þorski, reyndar sum árin ekkert. Það er fyrst þetta fiskveiðiár sem gjaldið hefur hækkað og er 6,44 kr/kg. Veiðigjaldið er brandari á kostnað þjóðarinnar og sérstaklega fólksins í sjávarbyggðunum þegar litið er til þess að þessa sömu heimild getur útgerðarmaðurinn sér að kostnaðarlausu leigt öðrum og fengið fyrir 250 – 280 kr.
Ágóðinn er gríðarlegur af þessum viðskiptum. Hægt er að selja veiðiréttinn langt fram í tímann, þar sem útgefnar veiðiheimildir, aflahlutdeildin er ótímabundin, og þá er söluverðið margfeldi af árlegu kvótaleiguverði. Hæst fór verðið í um 4.000 kr/kg. Þetta er skýringin á því að unnt hefur verið að auðgast um milljarða króna af því að selja kvóta. Megnið af gróðanum undanfarinn áratug hefur runnið út úr greininni í vasa fáeinna. Það sést best á því að skuldir útgerðarfyrirtækja jukust um 400 milljarða króna, fyrst og fremst vegna kvótakaupa. Í öðrum atvinnugreinum væri hagnaðurinn af kvótasölu færður sem ríkisstyrkur til viðkomandi einstaklinga og fyrirtækja.
Eyraroddi hefur ekki átt kvóta og hefur þurft að leigja til sín kvóta. Það stendur verr að vígi en kvótafyrirtækin sem kvótaleigunni nemur og því líka að eige ekki öruggan aðgang að heimildum. Fremur en að ráða bót á meinsemdinni í kerfinu er gripið til þess ráðs að útdeila byggðakvóta. Hann er líka ókeypis og er í raun líka ríkisstyrkur. Þannig er fyrirtæki sem stendur höllum fæti í samkeppni við önnur sem njóta ríkulegs ríkisstyrks færður ríkisstyrkur svo það geti þraukað eitthvað lengur. Boðaður 300 tonna byggðakvóti til Flateyrar er ekkert annað en 75-80 milljónir króna í peningum.“