Það er að verða til mikið af húsnæði í endurbyggðum gömlum húsum í Miðbænum, á Laugavegi 4-6 og á horni Lækjartorgs og Austurstrætis.
Spurning er hver leigan verður?
Mannfjöldinn í Miðborginni stendur ekki undir sérlega hárri leigu. Það er grenjandi samkeppni milli veitinga- og kaffihúsa sem koma og fara. Verslanirnar eru ansi einhæfar – eftir hrun varð sprenging í minjagripabúðum.
Af því maður hefur búið þarna lengi þá sér maður fólk stundum hefja starfsemi í einhverju húsnæði og veit að það mun fara á hausinn innan skamms tíma. Stundum langar mann að vara það við.
Það er heldur ekki eins og við búum í milljónasamfélagi. Það er talsvert af fólki á ferli í bænum á sumrin, þá bætast ferðamennirnir við, en svo koma mánuðir þegar er afar fátt fólk að sjá. Í svona fámennu landi er ekki alltaf hægt að búast við mikilli framlegð.
Það er líka til húsnæði sem við sem búum í bænum vitum að er dauðadæmt – ekkert þrífst þar. Maður sem ég hitti um daginn sagði að ástæðan væri lélegt feng shui – það er ekki verri skýring en hver önnur.
En maður vonar að skemmtileg starfsemi byggist upp í þessum endurbyggðu húsum, ekki bara það sama gamla og að sem fæstir tapi peningum. En það er ljóst að leigan mun seint standa undir byggingakostnaðinum.
Hér er mynd af húsunum á Laugavegi 4-6 eins og þau eiga að líta út. Ég gerði einu sinni grín að þessari mynd vegna þess að skuggarnir á henni eru eins og sólin sé á lofti í hánorðri.