Ég er alveg sammála Ögmundi að fjölmiðlar eiga að fjalla um málefni en ekki bara einblína á hina pólitísku baráttu.
Það hef ég líka gert – ég efast um að nokkur sjónvarpsþáttur á Íslandi fjalli jafn mikið um pólitísk málefni og Silfur Egils.
Þetta hef ég gert með bæði íslenskum og útlendum gestum.
Ég held ég hafi ekki verðskuldað það að Ögmundur kalli mig hrunverja – en tek fram að ég er alls ekki móðgaður yfir því. Ég er alveg sammála honum um opin og lýðræðisleg vinnubrögð.
Pistill Ögmundar helgast náttúrlega af hinni vandræðalegu stöðu sem er komin upp innan VG. Steininn tók úr um kvöldið þegar lauk þingflokksfundi hjá VG, fréttamönnum var svarað með hótfyndni og Ögmundur skammaði fréttakonu Sjónvarps fyrir að fjalla ekki um málefnin. En hvað gat hún sagt um málefnin þegar allt snerist um afsökunarbeiðni vegna orða þingflokksformannsins og alls konar fornemelsi – hjá þingmönnum sem svo vildu lítið við hana tala.
Og hvað varðar málefnin þá er margoft komið fram að Ásmundur Einar er andsnúinn ESB, að Lilja Mósesdóttir vill Alþjóða gjaldeyrissjóðinn burt og að þau Ásmundur, Lilja og Atli telja of langt gengið í niðurskurði í fjárlögunum sem þau treystu sér ekki til að samþykkja.
Þetta vita allir – og líka að innan flokksins geisar hörð barátta sem snýst ekki bara um þessi málefni heldur líka um völd.