Það er dálítið merkilegt að rýna í áramótaskaup síðustu tveggja ára. Það eru sömu höfundar sem þar véla um og sami leikstjóri og þau eru nokkuð svipuð.
Í áramótaskaupinu í fyrra var athyglinni beint að Bessastöðum. Þar var Ólafur Ragnar Grímsson dreginn sundur og saman í háði eins og maður hefur aldrei áður séð gert við íslenskan forseta. Honum var lýst sem lítilþægum gestgjafa spilltra útrásarvíkinga, ræningja og þjófa.
Ólafur náði hins vegar að snúa taflinu við – og það verða að teljast einhver ótrúlegustu töfrabrögð í stjórnmálasögu Íslands. Og nú er hann barasta nokkuð vinsæll aftur, að minnsta kosti hjá hluta þjóðarinnar.
Hann fékk frekar notalega umfjöllun um sig í skaupinu í gær – að minnsta kosti þarf hann ekki að hafa áhyggjur af því.
Þess í stað var spjótunum beint að Alþingi.
Alþingismönnum var lýst sem spilltum, lötum, makráðum eiginhagsmunapoturum sem botna ekkert í því hvað þjóðarheill er.
Þetta er að sönnu áhyggjuefni fyrir lýðræðið í landinu – því maður hefur á tilfinningunni að mikill fjöldi fólks geti tekið undir þessa lýsingu.
Og það er ekkert í kortunum sem bendir til þess að þingið geti unnið sig upp í áliti hjá þjóðinni í lengd eða bráð.