Það sem er hvað bagalegast í umræðunni á Íslandi er að það er ekki hægt að fá staðreyndir á hreint. Stundum er eins og menn vilji það ekki einu sinni. Davíð Oddsson lagði niður Þjóðhagsstofnun þegar hún var ekki nógu jákvæð á efnahagslífið í landinu. Það var lengi þráttað um hvort skattar hefðu hækkað eða lækkað. Og nú er til dæmis látið eins og ofur málefnaleg skýrsla frá ESB um íslenskan landbúnað sé einhvers konar plan um innlimun Íslands. Það er eiginlega sama hvar er borið niður – menn standa bara og gala.
Auðvitað eru menn að róa sínum pólitísku bátum, hver í sína áttina, en það ætti kannski að vera hægt að spara tíma og fyrirhöfn með því að sættast um einföldustu staðreyndir.
Hvernig er til dæmis málum háttað með álver í Helguvík – er næg orka fyrir það eða er ekki næg orka fyrir það. Hér eru tvær útgáfur, önnur er af heimasíðu Norðuráls:
„Fyrirhugaðar orkuframkvæmdir á suðvesturlandi geta gefið allt að 1.500 MW af orku sem er nærri þrefalt meira en þarf fyrir álver í Helguvík.
Nokkur umræða hefur spunnist síðustu daga um orkuöflun til álvers Norðuráls í Helguvík. Þar hafa margir viðrað þá skoðun að erfitt verði að afla orku fyrir þetta verkefni. Þær skoðanir virðast flestar byggjast á mjög lítilli gagnaöflun eða þekkingu. Í sumum tilfellum er augljóslega leitast við að gera verkefnið tortryggilegt.
Lítum aðeins á málin í samhengi. Næg orka er til á suðvesturlandi bæði fyrir álverið í Helguvík og aðra starfsemi. Þar er einfaldast að líta til þess sem þegar er á teikniborðinu. Í dag liggur fyrir mat á umhverfisáhrifum á virkjunum á Reykjanesi, Hellisheiði og í Þjórsá sem áætlað er að muni skila 760 MW. Innifalið í þessari tölu eru ekki virkjanamöguleikar í Gráuhnjúkum og Eldvörpum, þar sem þegar eru til borholur sem skilað hafa mikilli orku. Talið er að þessi svæði muni skila a.m.k. 100 MW. Að auki gæfi Norðlingaölduveita, sem þegar hefur farið í gegnum umhverfismat, verulega aukna orku til virkjana Landsvirkjunar í Þjórsá. Sú orka jafngildir um 80 MW virkjun. Þá er enn ótalið Krýsuvíkursvæðið sem samkvæmt Rammaáætlun um nýtingu vatnsorku og jarðvarma inniheldur 5 jarðhitasvæði sem hvert um sig gæti gefið um 100 MW eða 500 MW samtals. Við þetta má svo enn bæta við að Landsvirkjun á þó nokkra óselda orku í sínum kerfum í dag.
Ef allir þessir virkjanakostir eru lagðir saman fæst að orkuöflun sem þegar er á teikniborðinu á suðvesturlandi nemur um 1.500 MW. Álver í Helguvík þarf 625 MW þegar það er komið í fulla stærð eða um 40% af ofangreindum áformum.
Það er því fjarstæða að halda því fram á álverið sé að nota alla tiltæka orku. Jafnvel þótt einhverjir ofangreindra orkukosta reynist ekki hagkvæmir eða framkvæmanlegir er yfirdrifin orka til fyrir álverið í Helguvík og aðra starfsemi.“
Hin er úr fréttum Ríkisútvarpsins og þar kveður við allt annan tón:
„Norðurál er óra fjarri því að hafa tryggt álveri fyrirtækisins í Helguvík nægilega raforku. Raforkusamningar Norðuráls við HS Orku og Orkuveitu Reykjavíkur eru í uppnámi vegna óvissu um raforkuöflun, en sú raforka myndi einungis anna tæplega helmingi af raforkuþörf álversins.
Upphaflegar áætlanir Norðuráls gerðu ráð fyrir 250 þúsund tonna álveri, en nú er stefnt að því að reisa 360 þúsund tonna álver í fjórum áföngum á fimm til tíu árum. Um eitt hundrað manns starfa nú við byggingu álversins. Hver áfangi þess þarfnast um 150 MW af raforku, eða um 600 MW.
Norðurál gerði raforkusamninga við HS Orku og Orkuveitu Reykjavíkur. HS Orka ætlaði að útvega álverinu eitt hundrað MW með stækkun Reykjanesvirkjunar, en ekki hefur enn fengist leyfi fyrir slíkri stækkun. Fyrirtækið getur hugsanlega útvegað Norðuráli meiri orku úr Krísuvík og Eldvörpum, en leyfi til jarðhitarannsókna þar hafa heldur ekki fengist. N
orðurál hefur vísað raforkusamningi fyrirtækjanna fyrir gerðardóm í Svíþjóð sem úrskurðar hvort HS Orka sé skuldbundin af samningnum. Norðurál hugðist sömuleiðis stefna samningnum við Orkuveitu Reykjavíkur fyrir sænska gerðardóminn vegna vanefnda, en samkvæmt rammasamningi skuldbatt Orkuveitan sig til að útvega álverinu 175 MW.
Norðurál féll frá málaferlum eftir að ný stjórn Orkuveitunnar fór fram á að leitað yrði samninga. Vandi Orkuveitunnar er hins vegar sá, að til þess að geta staðið við gerða samninga þarf hún að útvega 15 milljarða króna til að klára Hellisheiðarvirkjun og ráðast í nýjar virkjanir í Hverahlíð, á Gráuhnjúkum og hugsanlega einnig Bitruvirkjun.
Nái Orkuveitan og HS Orka að standa við skuldbindingar sínar dugar það hins vegar álverinu í Helguvík skammt, því enn vantar ríflega 300 MW upp á til að anna raforkuþörf álversins og Orkuveitan hefur engar fyrirætlanir um að ráðast í nýjar virkjanir. Norðurál hefur átt í viðræðum við Landsvirkjun um þá raforku sem upp á vantar, en þar á bæ dugar raforkan sem í boði er ekki til að brúa bilið, nema ráðist verði í nýjar virkjanir. Álver í Helguvík er því afar fjarlægur veruleiki að svo stöddu.“