Herta Müller var alin upp undir einhverri skelfilegustu einræðisstjórn seinni tíma – stjórn Ceusescus í Rúmeníu. Andi einræðisins gegnsýrir öll verk hennar – það birtist alls staðar, í fólkinu, hlutunum. Herta Müller hélt mjög áhrifamikla ræðu við upphaf Bókmenntahátíðar í Reykjavík. Þetta er í raun frábær ritgerð hjá Nóbelshöfundinum. Hér er í heimsókn þessa dagana háttsettur pótintáti frá einræðisríkinu Kína. Af því tilefni má minna á kafla úr ræðu Hertu Müller – þetta er kannski eitthvað sem íslensk stjórnvöld ættu að ræða við Kínverja:
— — —
Það er skelfilegt, en rökrétt, að einræðisherrar í öllum heimshornum bregðist við með sama hætti, þegar þjóðin rís gegn þeim. Líkt og þeir þekkist allir, óháð tíma, stað og menningu. Líkt og þeir hafi komist að samkomulagi sín á milli, sem heldur gildi sínu og endurnýjast reglulega af sjálfu sér. Hvort sem litið er til Kína, Sýrlands, Hvíta-Rússlands, Norður-Kóreu eða Írans – alls staðar er mynstur einræðisins hið sama: Einræðisherrann er þögull fyrstu dagana, síðan heldur hann því fram að um vestrænt samsæri sé að ræða og úthúðar þjóð sinni sem meindýrum. Því næst lætur hann nokkra taglhnýtinga sína fjúka, ef þeir hafa ekki þegar flúið land, til að komast réttum megin átakalínunnar sem fyrst. Í stað þess að láta sjálfir af völdum, bregðast þeir við af blindri heift. Þeir eru vanir því að geta misnotað líf annarra sem eigin ránsfeng, og hvern hlut í landinu sem sína einkaeign. Mannfyrirlitning og þjófnaður eru daglegt brauð fyrir þeim. Þeir tryggja eigin völd og velsæld ættingja sinna. Eftir því sem ótti þeirra við valdamissinn eykst, telja þeir æ ómögulegra að hann geti átt sér stað. Og því ómögulegri sem hann virðist, þeim mun verra verður ofbeldið sem þeir grípa til. Þeir bera ekkert skynbragð á að fólkið hafi fengið sig fullsatt. Í sjálfselsku sinni ruglast þeir á áralöngum hyllingum fólksins, sem þvingaðar hafa verið fram með hræðslu, og ást. Kúgun rugla þeir saman við umhyggju. Öll fólskuverk telja þeir bera vott um föðurlandsást. Valdagræðgi þeirra verður sjúkleg. Sérhvern dag er brjálæðinu í höfðum þeirra hrint í framkvæmd í landinu. Sá sem ekki gefur sig brjálæðinu skilyrðislaust á vald, er ofsóttur, fangelsaður eða komið undir græna torfu. Og ef einræðisherrarnir eru ekki teknir af lífi strax eftir valdatökuna, en þurfa að mæta fyrir dóm, verða þeir undantekningarlaust mjög veikir.
Einræðisherrar kljúfa sérhverja þjóð. Annars vegar eru þeir sem þjóna þeim, gegn umbun. Hins vegar eru þeir sem ofsóttir eru vegna þess að þeir láta ekki sjálfræðissviptingu yfir sig ganga líkt og um náttúrulögmál væri að ræða. Þessi tvískipting helst eftir að einræðisherrunum hefur verið steypt af stóli. Hún lifir áratugum saman, því koma verður á hreint, hvernig þeir sem voru í náðinni brutu á hinum ofsóttu.
Kínverskur mannréttindafrömuður lýsir því hvernig leyniþjónustumennirnir töluðu til hans við handtökuna: ,,Hvers vegna í ósköpunum eigum við að ræða við þig? Við getum, orðalaust, grafið holu í jörðina og urðað þig.“ Frá Kína berast æ oftar fregnir af manneskjum sem teknar eru höndum af leyniþjónustunni og komið fyrir í svörtum fangelsum, á óþekktum stöðum. Ai Wei Wei var ekki fyrsta dæmið um slík mannrán ríkivaldsins. Að sama skapi hefur lengi ekkert spurst til Liu Xiaobo, friðarverðlaunarhafa Nóbels, sem setið hefur ellefu ár í fangelsi.
— — —
,,Gamli sköllótti vinur,“ kallar Liu Xiaobo, friðarverðlaunahafi Nóbels, Liao Yiwu. Þeir passa hvor við annan. Þeir hafa, hvor á sinn hátt, opnað augu okkar fyrir Kína dagsins í dag. En Xiaobo er í fangelsi vegna hinnar snilldarlegu Charter 08 yfirlýsingar, sem er skynsöm skrá með umbótatillögum handa lýðræðisríkinu sem Kína gæti orðið. Í þessu felst ,,glæpur“ hans. Hégómi og ótti við valdamissi hins kommúníska eilífðarflokks eru svo takmarkalausir, að vonarneista Liu Xiaobo var breytt í ellefu ára fangelsisdóm. Þetta sjálfsbjargarbrjálæði ríkisstjórnarinnar hefur ekki einungis orðið henni algjör andlitsmissir, heldur er það hrein og klár gjaldþrotayfirlýsing. En það virðist ekki koma járnherrunum við. Þrjóskir og blindir vernda þeir alræði sitt áfram. Sikksakkandi kvikindisskapurinn í meðferð þeirra á Ai Wei Wei verður heldur ekki skilinn á annan veg. Í því máli falsa menn eins lengi og sönnunargögnin duga, til að finna ,,afbrotin“ sem leitað er að. En sönnunargögnin duga ekki til neins – ásakanirnar eru mótsagnakenndar – geðþótti á geðþótta ofan. Rétt eins og dómurinn yfir Liu Xiaobo, sem stenst ekki einu sinni kínversk lög.