Fjölmiðlaherferð Geirs Haarde vegna landsdómsins er að skila býsna góðum árangri.
Má kannski segja að hann sé að reka landsdóm út í horn.
Málatilbúnaðurinn er líka misheppnaður að því leyti að Geir er að standa einn fyrir máli sínu – fólk spyr eðlilega hvar allir hinir séu? Seðlabankastjórarnir, Davíð Oddsson, samráðherrar Geirs. Að því leyti klúðraðist málið í meðförum Alþingis, svo illilega að kannski hefði verið réttast að hætta við.
Ég hef áður skrifað að sannleiks- og sáttanefnd hefði verið betri leið. Opnar yfirheyrslur. Slíkt hefur hins vegar aldrei þekkst á Íslandi.
En svo er líka í þessu tilraun til að endurskrifa söguna. Það er verið að reyna að sýna Geir sem einhvers konar bjargvætt.
En það vita auðvitað allir að hann klúðraði stórt. Nema þeir sem eru búnir að gleyma – eða vilja gleyma. Alistair Darling, fyrrverandi fjármálaráðherra Bretlands, segir að ekkert hafi verið að marka íslensk stjórnvöld – og það er nákvæmlega tilfinningin sem sem fólk fékk hérna heima. Við sitjum síðan uppi með stjórnkerfi sem er rúið trausti.
Geir var einn aðalhöfundur þeirrar efnahagsstefnu sem hér var rekin og endaði með algjöru hruni.
Sögnin að „haardera“ var búin til um framgöngu hans sem forsætisráðherra. Hún fólst í því að slá öllu sem hægt var að frest, forðast að horfast í augu við vandamálin.
Það er líka stóreinkennilegt – en partur af áróðursherferðinni – þegar látið er eins og ríkisstjórn Geirs hafi unnið einhver afrek í hruninu.
Jón Daníelsson, prófessor við London School of Economics, hefur sagt að það hafi verið „heppni“ að Íslendingar fengu ekki lánsfé erlendis til að setja í íslenska bankakerfið misserin fyrir hrunið. Þegar allt fór svo um koll voru fjárhæðirnar svo stórar að enginn hefði getað ábyrgst þær.
Jón segir frá því á mbl.is í gær það það sé ekkert sérstakt við hina svokölluðu íslensku leið.
Þetta hafði semsagt ekkert með stjórnvisku að gera, enda hafði hún verið af skornum skammti árin á undan.
Það voru sett á gjaldeyrishöft, sem nú er hrópað í þingi að minni á Austur-Þýskaland. Annað var líka gert, sem ekki hefur verið svo mikið rætt. Innistæður í bönkum voru tryggðar upp í topp – meðan skuldarar máttu taka á sig þungar byrðar.
Um þetta skrifaði Þórður Snær Júlíusson grein í Viðskiptablaðið fyrir stuttu. Hún nefndist Belti og axlabönd og segir þar meðal annars:
„Sama dag og neyðarlögin voru sett birti ríkisstjórn Íslands yfirlýsingu þess efnis að allar innstæður í „innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi verða tryggðar að fullu“. Sú yfirlýsing er enn í gildi. Innstæðueigendur voru því komnir með belti og axlabönd. Þeir komust í öruggt skjól.
Í rannsóknarskýrslu Alþingis er sagt áætlunum um hverjar ábyrgðir ríkis gætu orðið á innstæðum ef á reyndi. Þar kemur fram að hópurinn hafi áætlað að ef 5 milljón króna hámarksvernd yrði á innstæðum, miðað við umfang þeirra í maí 2008, þá myndi skuldbinding ríkisins vegna þessa verða 555 milljarðar. Það er tæpur fjórðungur af heildarinnstæðum á þeim tímapunkti. Ef sú leið hefði verið valin þá hefðu 95% einstaklinga verið með sparnað sinn í vari og 90% lögaðila. Lítill hluti stórra fjármagnseigenda hefði því verið skilin eftir með stórt tap.
Samkvæmt hagtölum Seðlabankans hækkuðu innlán innlendra aðila um rúmlega 142 milljarða króna í október 2008. Hluta þeirrar hækkunar má rekja til þess að aðilar sem áttu peninga erlendis fluttu þá „heim“ í skjól allsherjarinnstæðutryggingar. Þá seldu margir fagfjárfestar áhættusamari pappíra og breyttu í innlán þegar tók að sverfa af. Eignarhaldsfélög áttu 170 milljarða í innlánum á sama tíma. Verðbréfa- og fjárfestingasjóðir, sem margir fagfjárfestar áttu hluti í, áttu innlán fyrir 57 milljarða. Ýmis lánafyrirtæki 23 milljarða. Og svo framvegis. Ríkið ákvað einhliða að bjarga þessum aðilum. Þeir græddu allir á þeirri ákvörðun.
Var nauðsynlegt að tryggja innlán fjárfesta? Eignarhaldsfélaga? Allra þeirra sem höfðu betri innsýn í hvað var að gerast þegar bankarnir voru að hrynja og færðu eignir sínar í það form sem líklegast var að lifa af hremmingarnar? Mér finnst ekki, en ríkisstjórn Íslands var, og er, ósammála.“