Björgólfur Thor Björgólfsson hefur farið þá leið að reyna að terrorísera þá sem um hann fjalla.
Kannski er honum vorkunn – hann hefur svosem ekki sömu ítök í fjölmiðlum og Jón Ásgeir sem ennþá ríkir yfir fjölmiðlaveldi.
En Björgólfur er gjarn á að hóta lögfræðingum hvenær sem eitthvað er fjallað um hann. Nú hótar hann lögsókn vegna greinar sem birtist í The Observer.
Þetta er ekki síst gert til að hræða fólk frá því að fjalla um Björgólf – nema þá til að lofa hann.
Næstu daga verður reyndar sýnd í Kaupmannahöfn heimildarmynd sem fjallar um Thor eins og hann kallar sig í útlöndum.
Þar verður rakin saga Thors – og svo annars Thors – langafa hans Thors Jensen.
Það verður forvitnilegt að sjá útkomuna. Manni skilst meira að segja að eigi að vera pallborðsumræður á eftir með þátttöku Björgólfs Thors.
En eins og allir á Íslandi vita er sáralítið líkt með Björgólfi Thor og langafa hans. Björgólfur er leikandi í stóru spilavíti, en gamli Thor byggði upp alvöru atvinnuvegi.
Eitt gleymist heldur ekki svo glatt.
Björgólfur sótti fast að fá að kaupa hús langafa síns að Fríkirkjuvegi 11. Þegar hann var svo búinn að eignast húsið þá var það undireins veðsett upp í rjáfur – svo Björgólfur gæti fengið meiri spilapeninga.
Nú á Thor Jensen fjölmarga afkomendur og margt af því er hið mætasta fólk. Maður veltir fyrir sér hvernig því líki að Björgólfur Thor sé sífellt að eigna sér ættföðurinn?