Bændahjónin Eymundur Magnússon og Eygló Björk Ólafsdóttir í Vallanesi á Fljótsdalshéraði eru í stóru viðtali í Fréttablaði helgarinnar. Viðtalið stingur nokkuð í stúf við þá umfjöllun sem við eigum að venjast um landbúnað á Íslandi. Eymundur og Eygló standa fyrir stórfelldri ræktun á korni og grænmeti. Afurðirnar sem þau framleiða eru eingöngu lífrænar – og þau fá enga opinbera styrki.
Þau segja:
„Við horfum auðvitað helst til þeirra aðgerða sem Evrópusambandið hefur gripið til þess að styðja við lífrænan landbúnað og auka hlutdeild hans í heildinni. Þegar horft er til þess stuðnings sem þar er í boði fyrir þá sem stunda lífrænar framleiðsluaðferðir og hvernig er reynt að jafna aðstöðumun með tilliti til landfræðilegrar legu mætti ætla að lífrænum landbúnaði væri betur borgið innan Evrópusambandsins.“
Það kemur fram að ESB hefur einsett sér að tuttugu prósent af allri landbúnaðarframleiðslu verði lífræn fyrir árið 2020. Eftirspurn eftir lífrænum vörum hefur stóraukist – og búðir sem selja lífræna vöru eru út um allt, bæði í Evrópu og í Bandaríkjunum. Verðið er líka hærra en á annarri landbúnaðarvöru.
„Þar er stefnt á tuttugu prósent fyrir 2020 því þar sjá menn lífræna ræktun sem besta svarið við vaxandi mengun jarðvegs og grunnvatns. Hér er þetta eitt prósent og engin stefna hefur verið mótuð til framtíðar. Það er í raun áhyggjuefni.“
Síðan er fjallað um að engir styrkir séu veittir til framleiðslunnar í Vallanesi.
„Okkur þætti reyndar ekkert spennandi, á sama tíma og við berjumst fyrir okkar sjálfstæði sem matvælaframleiðendur, að þiggja styrki og það er ekki svo að við stundum okkar ræktun í skjóli styrkjakerfisins. En það sitja ekki allir við sama borð á Íslandi þegar kemur að fjarlægð frá mörkuðum, aðgengi að ódýrri orku og meira að segja fjarskiptum. Það má vissulega huga að því að jafna út slíkan aðstöðumun, og eðlilegt að þessi kerfi séu í stöðugri umræðu og þróun.“