Það er rætt á Facebook að megnið af Kvennalistakonum séu komnar út úr Samfylkingunni, eigi ekki heima þar lengur.
Á það má minna að það var hópur kvenna úr Kvennalistanum sem var einna mest áfram um að stofna Samfylkinguna.
En svo heltist Ingibjörg Sólrún úr lestinni – henni var kennt um efnahagshrunið.
Kristrún Heimisdóttir, samstarfskona hennar, hefur verið óánægð síðan.
Steinunn Valdís hvarf af þingi – hún fékk lítinn stuðning þegar mótmælendur sátu um heimili hennar. Nú er hún komin í vinnu hjá Ögmundi í Innanríkisráðuneytinu.
Guðrún Ögmunds datt út af þingi 2007.
Þórhildur Þorleifsdóttir fór inn í Stjórnlagaráð – hún hefur stundum talað um hvort ekki þurfi að stofna nýjan Kvennalista.
Í dag skrifaði ein Kvennalistakonan á Facebook:
„Þá er engin eftir…“
Það er reyndar ekki alveg satt, því Sigríður Ingibjörg Ingadóttir situr enn á Alþingi og það er jafnvel sagt að hún ætli að sækjast eftir varaformennsku í flokknum.
Flestar þessar konur voru á beinni framabraut fyrir nokkrum árum, þær höfðu mikil áhrif í Samfylkingunni, en það hefur breyst. Þá er spurning hvort þær hugsi sér til hreyfings með einhverjum hætti – og hvort þær hafi etthvert fylgi til þess.