Endurminningabók Alistairs Darling, fyrrverandi fjármálaráðherra Bretlands, er væntanleg í bókabúðir á næstu dögum.
Darling er í hópi valdra manna sem teljast vera sérlegir óvinir Íslands – eða þannig er talað um hann hér.
Menn eru þó ekki á einu máli um störf hans, sú kenning er líka til að hann hafi staðið sig nokkuð vel á tíma efnahagshrunsins 2008.
Fjölmiðlar í Bretlandi eru farnir að vitna í bókina, meðal þess sem vekur athygli eru ummæli Darlings um bankamenn. Hann segir:
„Áhyggjur mínar voru að þeir væru svo hrokafullir og heimskir að þeir myndu leiða okkur öll til glötunar.“
Hann nefnir svo Fred Goodwin, fyrrverandi stjórnanda Royal Bank of Scotland, sem hann segir að hafi hegðað sér eins og maður sem var alltaf „á leiðinni í golf“.
Það verður svo forvitnilegt að sjá hvort Darling nefnir Ísland, hryðjuverkalögin svonefnd og Icesave í bók sinni.