Það er athyglisvert að Vinstri grænir vilji rannsókn á stuðningi Íslendinga við hernað í Líbíu. Þeir eru í ríkisstjórn – en kannski voru þeir ekki spurðir.
Þetta var ekki mikið rætt hér þegar hernaðurinn hófst.
En þetta hlýst af veru okkar í Nató – hernaðarbandalagi sem er í leit að hlutverki. Var á sínum tíma stofnað til að verjast framgangi kommúnismans í Evrópu og í Norður-Atlantshafi.
Íslendingar fóru inn í þetta félag án þess að vera spurðir álits – það hefur verið látið eins og kommúnistaskríll hafi gert árás á Alþingishúsið 30. mars 1949, en svo var auðvitað ekki. Þetta var upp til hópa þjóðelskandi fólk sem vildi ekki leggja hið nýja lýðveldi undir þetta bandalag.
Það skildi kannski ekki nógu vel að lýðveldið var stofnað undir verndavæng Bandaríkjanna – og að Ísland væri á áhrifasvæði stórveldisins.
Samkvæmt lýðræðisskilningi nútimans hefði auðvitað átt að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um inngönguna í Nató. En það var ekki gert. Þegar leið á kalda stríðið varð smátt og smátt til meirihluti fyrir verunni í Nató meðal þjóðarinnar – en samt var þetta mál sem klauf Íslendinga í tvær andstæðar fylkingar. Nú virkar sá tími eins og forneskja.
En við erum ennþá í Nató, enginn veit í rauninni til hvers bandalagið er – það er sífellt í leit að takmarki og tilgangi – dúkkar upp í Bosníu, Kosovo, Afganistan og í Líbíu og meira að segja hörðustu stuðningsmenn bandalagsins frá fornu fari eru byrjaðir að efast.