Það er athyglisverð hugmynd að reisa lúxushótel á Grímsstöðum á Fjöllum – þeim stað sem er hvað lengst frá þéttbýli á Íslandi.
Þarna er gríðarlega kalt á vetrum – en að sönnu er mikil kyrrð meðal fjallanna.
Þegar EES samningurinn var gerður var mikið talað um útlendinga sem myndu streyma hingað og kaupa upp íslenskar jarðir. Þetta var af mörgum talin aðalógnin.
Það fór ekki svo. Nokkru síðar hófu íslenskir peningamenn hins vegar stórfelld jarðakaup. Núorðið veit maður ekkert hver á sveitir Íslands.
En nú mætir semsagt kínverskur auðmaður til leiks og kaupir þessa jörð, undir hana heyrir gríðarmikið landsvæði. Og þá vakna áhyggjur af því hvað hann ætli að gera – sumt nokkuð blandið þjóðrembu.
Eitt umkvörtunarefnið varðandi nýtingaráætlun sem var sett fram um daginn snertir jarðeigendur sem vilja ekki að aðrir séu að skipta sér af því hvernig eða hvort þeir nýti orku í landi sínu. En nú er það svo að maður má ekki gera hvað sem maður vill við eignir sínar.
Ég bý í húsi í miðborg Reykjavíkur með nokkuð stórri lóð. En ég má ekki rífa húsið og byggja tuttugu hæða hótel – sem sjálfsagt gæti verið fjarska arðbært.