Nú þegar komin er fram rammaáætlun um nýtingu náttúrusvæða og vernd þeirra fer í meðferð þingsins bendir allt til þess að virkjanir verði reistar í neðri hluta Þjórsár.
Í áætluninni er gert ráð fyrir umfangsmikilli verndun, líka á svæðum sem talin voru mjög líklegir virkjanakostir eins og Ölkelduháls og í Hágöngum. Þá verður Norðlingaölduveita varla reist heldur. Náttúruverndarsinnar vinna margháttaða sigra þarna, en þeir verða líkega að gefa eitthvað eftir líka.
Það er gert ráð fyrir nýtingu neðri hluta Þjórsár til raforkuframleiðslu. Það þýðir að leyfilegt yrði að reisa þrjár virkjanir þar, Holtavirkjun, Hvammsvirkjun og Urriðafossvirkjun.
Vinstri grænir hafa staðið á móti þessu – en innan Samfylkingarinnar er vilji til að virkja þarna. Þetta er eitt af helstu ágreiningsmálunum í ríkisstjórninni. En nú þegar þessi margumtalaða rammaáætlun er komin fram verður erfitt fyrir VG að standa gegn virkjununum í Þjórsá.