Frá degi til dags vex óttinn við að hagkerfið sé á leiðinni í tvöfalda niðursveiflu. Að atburðarásinni sem fór af stað 2007 og 2008 sé langt í frá lokið og nú blasi við efnahagskreppa eftir tímabil lítilsháttar bata.
Menn horfa á tölur um bandaríska hagkerfið, þar ríkir stöðnun og afturför, sömu sögu er að segja um Bretland og skuldakreppan í Evrópu er óleyst. Hagvöxtur hægir á sér í Kína.
Nú eru ekki til peningar til að dæla út í hagkerfið og bankana eins og gert var 2008.
Fjárfestar eru afar varkárir, leita skjóls í gulli og ríkisskuldabréfum.
Sumir tala um hrun, aðrir um að stefnt sé inn í ástand eins og hefur ríkt í Japan og hófst í skuldakreppunni þar 1990 – og einkennist af sama og engum hagvexti, veiku bankakerfi og stjórnmálum sem eru í uppgjöf gagnvart þessu ástandi. Kerfið í Japan hrundi ekki, en það staðnaði.
Svo eru auðvitað aðrir sem gætu bent á að Japan vegni bara nokkuð vel þrátt fyrir þetta – að landið hafi komist bærilega af þrátt fyrri hinn litla vöxt. En það náttúrlega rímar ekki við hagvaxtartrúna sem sem er sjálfur grundvöllur kerfisins.