Nánast öll ríki í Evrópu eiga aðild að Evrópusambandinu, utan þau sem eru að reyna að komast þangað inn.
Undantekningin er Noregur með sinn mikla olíuauð sem gerir hann að eins konar undanþágutilfelli meðal þjóða og Sviss með sína miklu fjármálastarfsemi sem stendur á gömlum merg.
Allar hinar þjóðirnar eru með eða vilja fara inn. Í mörgum þessara landa hefur verið mikil velmegun og það gengur bærilega, þrátt fyrir efnahagshremmingar undanfarinna ára.
Hvað vitum við sem þessar þjóðir vita ekki? Hví telja þær ekki súrrealískt að vera í ESB?
Nú má vel vera að það verði ljóst að loknum samningaviðræðum að það sé ekki heppilegt fyrir Ísland að ganga í ESB. Kannski verður samningurinn ekki nógu góður, kannski verður hin pólítíska staða ekki góð. Evran gæti vissulega hrunið, það gæti skollið á meiriháttar kreppa í Evrópu og kannski öllum heiminum. Við myndum ekki fara varhluta af henni hér – enda er efnahagslífið á Íslandi ennþá í rúst eftir hrunið 2008.