Samfélagsrýnirinn og fjárfestirinn George Soros er í merkilegu viðtali við Der Spiegel.
Soros segir meðal annars að það sé engin leið að hætta að nota evruna nema með skelfilegum afleiðingum – skipbrot evrunnar gæti orsakað heimskreppu eins og þá sem hófst 1929. Evran sé veruleiki. Þjóðverjar verði að horfast í augu við þetta, lönd á evrusvæðinu verði að fá að fjármagna skuldir sínar á viðunnandi kjörum. Soros telur að óhjákvæmilegt sé að koma á laggirnar evrópskum skuldabréfum.
Soros segir einnig að aðferðum Keynes hafi verið beitt þegar bankakerfi heimsins riðaði til falls 2008. Við séum enn í sama öldudal og þá. Ríki hafi dælt peningum í hagkerfið, sem hafi verið í anda Keynes, en vandinn sé sá að ríkin sem þetta gerðu voru þegar skuldug – skuldirnar sem þarna bættust við geri skuldastöðuna nærri óviðráðanlega. En Soros telur að peningarnir sem ríkið setti í hagkerfið hefðu þurft að fara í meira mæli í menntun og uppbyggingu á innviðum samfélagsins.
Soros er þeirrar skoðunar að rétt sé að banna skortsölur, þær séu hættulegar og auki líkurnar á neikvæðri útkomu. Einnig telur hann að vegferð matsfyrirtækjanna sé mjög einkennileg, þau séu farin að fylgjast meira með stjórnmálaþróun en áður og dæma eftir því.
Loks talar Soros um Kína sem hann segir að hafi verið mesti sigurvegari hnattvæðingarinnar. En Kína muni tapa stórt ef hnattvæðingunni verður snúið við. Kínverjar telji það sér til dæmis í hag að halda evrunni uppi, þar styðji þeir ríkisstjórnir Evrópu. Hann telur að Kínverjar kaupi mikið af evrum – og segist sjálfur ekki myndi veðja gegn evrunni vegna þessa.