Ég hef verið þeirrar skoðunar að ríkisstjórnin hjari áfram þrátt fyrir að raðir stjórnarliða séu orðnar þunnar.
Hækkanir á skatti á matvæli gætu hins vegar gert hana ennþá óvinsælli en nú er – ef það er þá hægt.
Stjórnin á ærið verkefni fyrir höndum við að koma næstu fjárlögum í gegn – og það má ekkert út af bera. Ef einn þingmaður í viðbót fer fyrir borð er stjórnin fallin.
Það vantar meiri verðmætasköpun í samfélagið – og skortur á henni gæti farið að valda óróa í stjórnarliðinu. Það er ekki nóg að halda krónugenginu lágu til að afgangur sé af sjávarútvegnum, skera niður og skattleggja og láta stóran hluta fyrirtækjanna í landinu vera í eigu banka.
Þetta er ekki efnahagsstefna sem dugir til frambúðar, en hins vegar er skynsamlegt hjá Steingrími J. að horfast í augu við það að halli verður áfram á ríkissjóði. Það er einfaldlega ekki gerlegt að ná honum niður á svona stuttum tíma.