Það ríkir ofsahræðsla á mörkuðum alls staðar í heiminum. Maður fylgist með og er með hnút í maganum.
Hlutabréfamarkaðir falla, það eru sérstaklega hlutabréf í bönkum sem verða illa úti. Óttinn beinist að því að evrusvæðið kunni að liðast í sundur og að bandaríska hagkerfið sé komið að fótum fram.
Að hluta til er þetta sálrænt, það þarf svo lítið til að hlaupa öllu upp og þá hlaupa allir um eins og ráðlaus hjörð. Barroso, framkvæmdastjóri ESB, sagði í gær að kannski væri ekki hægt að stöðva efnahagsmeinið sem fer um evrulöndin. Og tölur um vinnumarkaðinn í Bandaríkjunum eru mjög lélegar.
Fjárfestar flýja í þýsk ríkisskuldabréf þótt þau gefi lítið af sér – og gull.
Olía lækkar skart í verði.
Menn spyrja sig hvort hér sé upphafið að kreppu, niðursveiflu eins og þeirri sem byrjaði með hruni Lehmans 2008. Aðrir bera þetta fremur saman við ágúst 2007, mönnum hættir til að gleyma því að upphaf kreppunnar var í raun þá, þegar var ljóst að undirmálslánin í Bandaríkjunum voru eitur.
Það er spurning hvort stjórnmálamenn og seðlabankastjórar séu ráðalausir í þetta sinn. Það er þegar búið að dæla út miklum peningum til að berjast gegn efnahagskreppu. Í síðustu umferð fór mest af þeim peningum í banka, í þetta sinn gætu það verið ríki sem þarf að reyna að bjarga. Neyðarsjóður sem Evrópusambandið ætlaði að stofna er ekki ennþá orðinn til – það er langur tími þangað til að hann gæti orðið að veruleika. Og vestanhafs virðist upplausnin í stjórnmálunum vera slík að ekki er hægt að gera neitt af viti.
Kínverjar og Japanir segja að leiðtogar heimsins verði að koma saman og taka á vandanum. Kannski gera þeir það, það fer að verða kominn tími á smá leiðtogahæfileika, því spilavítið virðist vera orðið alveg stjórnlaust.