Richard Murphy skrifar í Guardian og spyr hvort við séum að stefna í annað fjármálahrun? Svar hans er: Líklega, já.
Meginástæðuna segir hann vera að við hliðina á hinu raunverulega hagkerfi sé orðið til annað hagkerfi sem hann líkir við villidýr. Þetta sé afsprengi nýfrjálshyggjunnar sem hafi ríkt síðustu þrjá áratugina.
Þetta hagkerfi er stjórnlaust, í því fer fram taumlaus spákaupmennska og brask. Það er veðjað á móti gjaldmiðlum og móti ríkjum. Afraksturinn veltur um fjármálastofnanir eða er fluttur í skattaparadísir. Villidýrshagkerfið er ekkert annað en dragbítur á hið raunverulega hagkerfi.
Murphy segir að nauðsynlegt sé að koma böndum á villidýrshagkerfið. Það sé hlutverk stjórnmálamanna. En því miður sé ekki víst að þeir hafi kjark. Og dýrið muni líka berjast fyrir lífi sínu.